Þjóðskjalasafn Íslands ásamt Landsskjalasafni Færeyja og Landsskjalasafni Grænlands stóðu fyrir sameiginlegum fundi um varðveislu rafrænna gagna í Þjóðskjalasafni 20. – 21. september sl. Söfnin fylgja öll aðferðarfræði og regluverki Ríkisskjalasafns Danmerkur í varðveislu rafrænna gagna og því þótti tilvalið að starfsmenn þeirra sem sinna varðveislu rafrænna gagna hittust til samráðs. Flutt voru erindi um lagaumhverfi, leiðbeiningar og stöðu rafrænnar vörslu í löndunum. Fundarmenn miðluðu af reynslu sinni og ræddu um sameiginleg hagsmunamál safnanna í vörslu rafrænna gagna og lausn verkefna. Fundurinn tókst vel og var ákveðið að halda áfram samstarfi á þessum vettvangi og styrkja þannig sérfræðiþekkingu í varðveislu rafrænna gagna í Vestnorrænu ríkjunum þremur.