Annað tölublað Nordisk Arkivnyt á árinu 2015 er nýkomið út. Í ritinu eru að vanda greinar um starfsemi skjalasafna á Norðurlöndunum og fastir efnisþættir.
Árni Jóhannsson og Benedikt Jónsson skrifa um gögn sem fundust í einkaskjalasafni Einars Ástráðssonar (1902-1967) héraðslæknis á Eskifirði og fylla í eyður opinberra gagna. Þessi skjalaafhending er gott dæmi um þau verðmæti sem geta leynst í einkaskjalasöfnum og verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir fólki að umgagnast skjöl af virðingu og koma þeim í vörslu viðeigandi aðila, þ.e. skjalasafna. Njörður Sigurðsson skrifar um vefinn einkaskjalasafn.is sem er samskrá yfir einkaskjalasöfn á Íslandi.
Sú venja að tölfræði um starfsemi norrænu safnanna birtist í öðru tölublaði hvers árs er í heiðri höfð. Eins og vænta má eykst skjalaforði safnanna stöðugt sem og skil rafrænna gagna. Í árslok 2014 var skjalamagn í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands 42,8 hillukílómetrar (hm) og Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveitti 9,4 hm, samtals 52,2 hm. Þá hafði skjalaforði þessara safna aukist um tæp 2% frá fyrra ári.
Að þessu sinni er tímaritið 48 blaðsíður í A4 broti. Svæðisritstjóri fyrir Ísland er Hrefna Róbertsdóttir.