Ný útgáfa af manntalsvef Þjóðskjalasafns hefur litið dagsins ljós. Útlit vefjarins hefur verið bætt verulega og einnig leit og almenn virkni.
Á manntalsvefnum er að finna 13 manntöl allt frá elsta manntalinu 1703 til manntalsins 1920. Enn á eftir að bæta við manntölum og reiknað er með að manntalið 1801 bætist í hópinn áður en langt um líður. Þá verða öll aðalmanntöl frá 1703 fram til 1920 komin á vefinn. Einnig er stefnt að því að setja inn manntalið 1816, sem prentað var að tilhlutan Ættfræðifélagsins og kom út í sex heftum á árunum 1947-1974, og fleiri manntöl 20. aldar.
Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði manntalsvef Þjóðskjalasafnsins 14. nóvember 2009. Þá voru ellefu manntöl aðgengileg á vefnum. Nú hefur þeim fjölgað um tvö og framtíðaráform eru að setja inn fleiri manntöl og bæta við möguleikum á að skoða manntalsgögnin frá ýmsum hliðum.
Verið velkomin á manntalsvefinn og takið með ykkur gesti.