Í sumar bárust þau merkilegu tíðindi að manntalið 1703 yrði tekið á skrá UNESCO um minni heimsins (World Memory) og það hefur síðan verið formlega staðfest. Af því tilefni opnaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sýningu á frumskjölum manntalsins 1703 í Þjóðskjalasafninu sl. föstudag.
Sýningin var síðan opin á norræna skjaladeginum daginn eftir og verður einnig opin laugardaginn 16. nóvember kl 11:00 - 16:00.
Auk sýningarinnar var dagskrá í Þjóðskjalasafni á norræna skjaladeginum. Þar voru flutt fjögur erindi sem öll tengdust manntalinu 1703 á einn eða annan hátt. Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður fjallaði um manntalið og tilnefningu þess á skrá UNESCO. Hildur Biering sagnfræðingur greindi frá fósturbörnum í manntalinu 1703 og meðferð þeirra. Már Jónsson prófessor flutti erindi um jarðabókarnefnd Árna Magnússonar og Páls Vídalíns og Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og ljóðskáld sagði frá amlóðum og eymdarfuglum í manntalinu 1703 og áhuga sínum og vangaveltum um manntalið sem fyrirbæri. Þá var lestrarsalurinn opinn og þar var boðið upp á leiðsögn um notkun manntalsvefjarins og annarra heimilda til ættfræðirannsókna.
Á annað hundrað manns sóttu þessa tvo viðburði í Þjóðskjalasafni Íslands.