Á lestrarsal Þjóðskjalasafnsins eru nú til sýnis dæmi um prófverkefni frá Lærða skólanum 1847-1852. Þar er tilvalið að líta inn og sjá verkefni sem lögð voru fyrir nemendur um miðja nítjándu öld. Lærði skólinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum og ekki verið við einn stað kenndur í gegnum tíðina, en heitir núna Menntaskólinn í Reykjavík.
Hér er dæmi um verkefni frá þessum tíma.
Á Reykjavíkurlegu liggur skip fyrir landi. Þegar á það er miðað frá skólabustinni, þá er sjónmál þess 51° neðar sjóndeildarhringi, en sje miðað á það frá grundvelli skólans, þá er það 24° neðan sjóndeildarhringi. Nú er skólabustin metin nærfelt 7 föðmum hærri en grundvöllurinn. Hversu langt er þá skipið burtu frá skólanum og hversu mikið er grundvöllur skólans ofan sjóarmáli?
Og nú er bara að spreyta sig.