Fyrir ári síðan sendi Þjóðskjalasafn inn umsókn um að manntalið 1703 yrði tekið á skrá UNESCO um minni heimsins (World Memory). Þau ánægjulegu tíðindi bárust í gær að umsóknin hefði verið samþykkt og manntalið 1703 er því komið í skrána um minni heimsins. Um skráninguna má lesa á vefsetri UNESCO.
Manntalið 1703 er líklega elsta manntal í heimi, sem enn er varðveitt, þar sem getið er allra þegna heillar þjóðar með nafni, aldri og stöðu. Það er einstök heimild um íslenskt þjóðfélag í upphafi 18. aldar.
Ákvörðun um að taka manntalið spratt af bágbornu efnahagsástandi landsins og harðindum í lok 17. aldar. Árni Magnússon prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og Páll Vídalín varalögmaður fengu það verkefni að kanna ástand og efnahag landsins og taka manntal. Þeir sendu sýslumönnum fyrirmæli um töku manntalsins sem aftur fólu hreppstjórum framkvæmdina sem hófst í desember 1702 og lauk í júní árið eftir. Manntalsskýrslurnar voru síðan sendar til Danmerkur og voru þar allt til ársins 1921 að þær voru fluttar til Íslands. Með samningi Íslands og Danmerkur árið 1927 urðu þær eign Íslands.
Manntalið er varðveitt í heild sinni í Þjóðskjalasafni á um 1700 blöðum og bréfsnifsum í tveimur skjalaöskjum. Það þætti ekki mikið pappírsmagn nú á tímum, en öðruvísi horfði við á sínum tíma. Í Grímsstaðaannál segir um pappírsnotkun við manntalsgerðina: „þá var pappír dýr í sveitum víða, er öllu þessu var aflokið“.
Hagstofa Íslands gaf manntalið út í prentuðum heftum á árunum 1924-1947, sem síðar voru sameinuð í bókarform. Árið 2001 var manntalið 1703 í fyrsta sinn birt notendum alnetsins á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Núna er stafræn gerð manntalsins á manntalsvef Þjóðskjalasafns.