Nýlega lauk Óskar Guðlaugsson BS gráðu í landfræði. Lokaritgerð hans, „Makaval og heimabyggð. Uppruni hjóna samkvæmt manntali 1845“, byggir á gögnum manntalsins 1845, sem Þjóðskjalasafn veitti Óskari aðgang að til rannsóknarvinnu. Óskar kortleggur landfræðileg tengsl hjóna eftir skráðum fæðingarstöðum í manntalinu og kannar hvort mægðir áttu sér stað innan sóknar eða sýslu eða hvort leitað var lengra eftir maka.
Niðurstaðan er sú að í ríflega 65% tilvika voru hjón fædd í sömu sýslu, þar af voru 18,7% hjóna fædd í sömu sókn. Í tæpum fjórðungi tilvika voru mægðir á milli nálægra sýslna og í 10,3% voru mægðir á milli fjarlægra sýslna eða úr öðrum landshluta. Þarna er miðað við niðurstöður fyrir landið allt.
Líklega hefur landslag haft einhver áhrif, því mægðir innan sýslu eru algengastar í Ísafjarðarsýslu og Austur-Skatfafellssýslu, sem báðar verða að teljast fremur einangraðar um miðja 19. öld. Á hinn bóginn eru slíkar mægðir fæstar í Hnappadalssýslu, sem var lítil sýsla á milli Snæfellsnessýslu og Mýrasýslu.
Íbúar í Gullbringusýslu skera sig úr að því leyti að þeir eiga öðrum fremur maka úr fjarlægum sýslum og óvenju sterk makatengsl virðast vera á milli íbúa þar og íbúa fjarlægra sýslna eins og Skagafjarðarsýslu og Vestur-Skaftafellsýslu. Nánari greining leiðir í ljós að ólíkir hlutar Gullbringusýslu mægðust tilteknum landshlutum fremur en öðrum: Vesturland og Vestfirðir tengdust sýslunni nær eingöngu gegnum Reykvíkinga, meðan Norðlendingar voru líklegri til að eiga maka frá Hafnarfirði, og fólk úr fjarlægum sýslum Suðurlands mægðist frekar Suðurnesjamönnum.
Miklu fleira athyglisvert má lesa út úr ritgerð Óskars Guðlaugssonar, og myndritum og teikningnum sem í henni eru birtar, en hér er hægt að rekja í stuttri frétt. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér efni ritgerðarinnar nánar geta sótt hana á Skemmuna.