Þann 19. mars sl. lauk síðasta námskeiði Þjóðskjalasafns um skjalavörslu á þessum vetri. Þetta er fjórði veturinn sem Þjóðskjalasafn býður upp á regluleg námskeið í skjalavörslu og eru námskeiðin orðin fastur liður í öflugu fræðslustarfi safnsins.
Í vetur voru haldin alls 12 námskeið um grunnatriði í skjalavörslu afhendingarskyldra aðila um gerð málalykla, frágang pappírsskjalasafna, tilkynningu rafrænna gagnakerfa og um gerð skjalavistunaráætlunar. Að þessu sinni var einnig boðið upp á þrjú almenn námskeið um skjalavörslu á landsbyggðinni fyrir ríkisstofnanir, þ.e. á Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði og mæltust þau námskeið vel fyrir. Auk þess var haldið námskeið um skjalavörslu fyrir Lögreglustjórann á Suðurnesjum að beiðni hans.
Stofnanir geta óskað eftir sértækum námskeiðum um skjalavörslu og er innihald fræðslunnar þá ákveðið í samráði við viðkomandi stofnun. Námskeiðin sóttu um 190 manns frá tæplega 90 aðilum, mest frá ríkisstofnunum en einnig frá sveitarfélögum og einkaaðilum.
Til stendur til að gera rafræna viðhorfskönnun um námskeið ÞÍ í apríl og í framhaldinu móta námskeiðsáætlun næsta vetrar. Námskeiðsáætlun fyrir veturinn 2013-2014 verður auglýst í maí eða júní.