Karl-Erik Frandsen, cand. mag. í sögu og landafræði, dr. phil. og lektor í sögu við Hafnarháskóla, hélt í dag erindi um viðbrögð danskra stjórnvalda vegna plágunnar í Danmörku 1711. Hann fjallaði sérstaklega um þá skjalaflokka sem þá urðu til og hafa verið honum rannsóknarefni.
Í málstofu um bólufaraldra á Íslandi og í Kaupmannahöfn á Söguþingi á morgun mun Karl-Erik Frandsen fjalla um bólufaraldra á Eystrarsaltssvæðinu, en hann hefur nýlega gefið út bók um það efni, The last Plague in the Baltic Region (2009).
Aðrir málshefjendur eru Eiríkur G. Guðmundsson, cand. mag., settur þjóðskjalavörður, sem mun fjalla um Stórubólu 1707-1709 og Magnús Gottfreðsson læknir, dr. med., sérfræðingur í smitsjúkdómum við Landspítala - háskólasjúkrahús og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, sem mun fjalla um sjúkdómseinkenni, dánartíðni og smitleiðir bólusóttar og plágu (svarta dauða).