Sautján starfsmenn Þjóðskjalasafns Íslands dvöldu í Edinborg dagana 11. - 14. október og kynntu sér starfsemi Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns Skotlands og skiptust á upplýsingum við starfssystkini sín þar ytra.
Fimmtudaginn 11. október heimsóttu starfsmenn Þjóðskjalasafns Landsbókasafn Skotlands (National Library of Scotland) og fræddust um starfsemi safnsins, skoðuðu húsakynni og sýningu á völdum íslenskum heimildum í eigu safnsins, þar á meðal var Jónsbókarhandrit. Einnig var sýnd starfsstöð safnsins sem sér um skönnun á kortum og bókum.
Daginn eftir var skoska þjóðskjalasafnið (National Records of Scotland) heimsótt. Þar fór fram kynning á safninu, safnkosti þess, stefnu og starfsemi og húsakynni við Princes Street voru sýnd. Síðan var íslensku gestunum skipt í tvo hópa og fékk annar hópurinn kynningu á opinberum skjölum og einkaskjölum í safninu á meðan hinum hópnum var kynntur aðgangur almennings að gögnum safnsins á stafrænu formi og miðlun þeirra um alnetið.
Á báðum stöðum var boðið upp á léttan hádegisverð og voru móttökur Skotanna frábærar í einu og öllu. Ferðin í heild var hin ánægjulegasta og héldu starfsmenn heim á leið stórum fróðari um starf starfssystkina sinna í Skotlandi.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá heimsókninni.
Starfsmenn Þjóðskjalasafns á ferð í Skotlandi
föstudagur, 16. nóvember 2012 - 14:30