Veturseta Skúla Magnússonar landfógeta utan við borgarmúra Kaupmannahafnar 1784–1785

Maí 2022

Veturseta Skúla Magnússonar landfógeta utan við borgarmúra Kaupmannahafnar 1784–1785

ÞÍ. Rentukammer B2/29, örk 37
ÞÍ. Landfógeti XXIX, 1. Einkaskjöl Skúla Magnússonar. Bréfauppköst og bréfaskrá m.m. 1776.

Ólafur Guðmundsson Snóksdalín ættfræðingur (1761–1843) sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1784. Fyrsta veturinn bjó hann úti á Kristjánshöfn og vann fyrir Skúla Magnússon landfógeta sem hafði vetursetu rétt utan við höfuðstaðinn. Í æviágripi sínu segir Ólafur:

Þann vetur var ég oftast á hvörjum degi utan Norðurport á Stóru-Ravnsborg hjá landfógeta Skúla Magnússyni og þáði kost hjá honum um daga. […]
Að komandi vori reisti landfógetinn til Íslands sína síðustu milliferð, en kom mér fyrir hjá húsverti sínum Bernsen, sem var einn Gartner, að læra þá konst, því ég þóttist vera of gamall til að ganga í handverksskóla og þjóna lengi fyrir dreng.
Á Ravnsborg var ég vel látinn og átti þar gott. Var ég settur sem verkstjóri yfir erfiðisfólkið, en hafði sjálfur hæga vinnu. Þetta leið svo til þess snemma um vorið 1787, að ég veiktist og fekk köldusýki svo mikla annan hvörn dag í fyrstu, að hvað vel sem ég um mig bjó og ég að mér hlúði, fékk ég skjálfta svo mikinn, að oft lá við að ég kastaðist úr sænginni, en eftir á svo mikinn hita, að ég vatt þrisvar skyrtu mína, svo sem úr vatni dregna.

Þegar veikindin, sem virðast hafa verið mýrarkalda, höfðu gengið yfir fékk hann boð frá syni Skúla, Birni Thorlacius skipasmíðameistara, að honum stæði til boða að gerast verslunarþjónn (d. assistent) kaupmanns frá Altona sem var að hefja verslun á Ísafirði. Hann þáði boðið og yfirgaf Stóru-Ravnsborg.

En hvað var Stóra-Ravnsborg fyrir nokkuð? Björn Th. Björnsson listfræðingur segir að það hafi verið lystihótel umkringt miklum görðum. Ekki hefur tekist að finna heimildir fyrir hótelrekstrinum en hins vegar má finna fjölmargar heimildir um að á Stóru-Ravnsborg hafi verið rekin umfangsmikil gróðrarstöð og fræsala.

Fram yfir miðja 19. öld var Kaupmannahöfn umgirt borgarmúr og var aðeins hægt að komast út úr borginni um hlið sem báru heitin Vesturport, Norðurport, Austurport og Amagerport. Stóra-Ravnsborg stóð utan við borgarmúrana, þ.e. utan við Norðurport eða Norðurhlið, nánar til tekið Friðriksbergs megin við Sortedams sø. Nafnið kemur fyrst fram á sænsku njósnakorti frá árinu 1658 og er þar sagt vera hús bæjarfógetans sem þá var Klaus Iversen Ravn og hafa húsið og landareignin þegið nöfn sín af honum. Ravnsborggata á Norðurbrú heitir svo eftir Stóru-Ravnsborg. Það var heljarinnar landsvæði sem fylgdi Stóru-Ravnsborg eða fimm tunnur lands alls eða 27,500 fermetrar af ræktanlegu landi. (Tunna lands var forn flatarmálseining, þ.e. það landsvæði sem sáð varð í með einni tunnu af fræi en það samsvaraði 0,55 hektörum.)

Á árunum 1725–1727 þegar vötnin, sem skilja að Kaupmannahöfn og Friðriksberg, fengu á sig þá mynd sem þau hafa í dag þá var hverju hlassinu á fætur öðru af leðju og aur sturtað á nærliggjandi jarðir. Garðyrkjumennirnir, sem áttu umræddar jarðir, kvörtuðu undan þessu og sóttu sumir hverjir um ýmiss konar bætur. Andreas Behrendts á Stóru-Ravnsborg fékk t.d. leyfi konungs, 3. desember 1725, til þess að brugga öl og brennivín til sölu á staðnum. Hann hefur því getað, sem garðyrkjumaður, ræktað hráefnið sem þurfti til bruggunarinnar, t.d. humla og kartöflur. Það kynni að þykja einkennileg staðsetning að setja niður krá rétt utan við borgarmúrana þegar nóg var af vertshúsum í Kaupmannahöfn. En sökum óþefs sem lagði úr síkjum og rennusteinunum sem borgarmúrarnir lokuðu inni og síðan magnaðist upp í sumarhitunum þá tóku Kaupmannahafnarbúar upp á því að bregða sér út fyrir borgarmúrana til þess að fá sér ferskt loft. Þetta mun ástæða þess að sumarhöll konungsfjölskyldunnar var ekki lengra í burtu en á Friðriksbergi en lengra þurfti ekki að fara til þess að vera laus við óþefinn.

Umræddur Andreas Behrendts (ættarnafnið er skrifað á ótal mismunandi vegu í heimildum) var garðyrkjumaður og af þýsku bergi brotinn. (Vakin skal athygli á því að þjóðernið skiptir máli varðandi leit í dönskum kirkjubókum. Eðlilegt er að hefja leit í kirkjubókum þeirrar kirkju sem næst var heimili viðkomandi því sennilegast var heimili hans í þeirri kirkjusókn. Hins vegar hafði þýski söfnuðurinn sér kirkju, þ.e. kirkju heilags Péturs (Sankti Petri kirke) sem stendur við samnefnt stræti og þangað sóttu guðsþjónustu Þjóðverjar sem búsettir voru í Kaupmannahöfn óháð búsetu.) Fæðingar- og dánarár Andreasar liggja ekki fyrir og sömuleiðis mun lítið vitað um eiginkonu hans. Hann var þó á lífi 10. desember 1756 þegar barnabarn hans var skírt en þar var hann á meðal skírnarvotta.

Sonur hans Johann Gottlob Behrendts (f. um 1721–jarðaður 16. maí 1774) fetaði í fótspor föður síns og tók við rekstri gróðrarstöðvarinnar eftir hann. Hann kvæntist Dorotheu Knutzen (f. um 1723–d. 27. júní 1791) þann 7. febrúar 1749 og eignuðust þau fjögur börn; Andreas sem var skírður í höfuðið á afa sínum 9. janúar 1750 en dó tæpum mánuði síðar, Anna Margaretha (f. 23. mars 1751), annar Andreas sem var skírður 22. maí 1754 og Johann Gottlob sem var skírður 10. desember 1756.

Undir stjórn Andreasar og Johanns Gottlob varð Stóra-Ravnsborg ein stærsta gróðrarstöð og fræsala landsins. Það hafa verið gríðarmikil gróðurhús og vermireitir á landareigninni, auk þess voru þar garðar sem borgarbúar gátu spásserað um þegar þeir brugðu sér út fyrir borgarmúrana. Þá seldu feðgarnir uppskeru sína á staðnum svo að hægt var að setjast niður og njóta þess sem ræktað var í görðunum. Þannig segir Peter Schiønning (1732–1813) sjóliðsforingi frá því í dagbók sinni að hann hefði farið út á Stóru-Ravnsborg, hann talar reyndar um Ravnsborghave eða garð, og borðað þar jarðarber með rjóma. Það gerði hann fjórum sinnum á árunum 1766–1768.

Þeir feðgar afgreiddu risastórar pantanir til konungshalla og herragarða sem vildu hafa skrúðgarðana á landareignum sínum eins mikilfenglega og hugsast gat. Árið 1746 var afgreidd pöntun til Frederiksdalshallar á Lálandi. Á næsta ári afgreiddi Andreas rúmlega 600 trjáplöntur til Lerchenborgar herragarðs sunnan við Kalundborg á Sjálandi. Sama ár, eða 1747, var stór pöntun afgreidd til skrúðgarðsins við Hleiðruborg (Ledreborg) suðvestan við Hróarskeldu. Á árunum 1753–1765 fóru frá Stóru-Ravnsborg stórar pantanir til hallargarðsins við Fredensborgarhöll sem er skammt frá Helsingjaeyri. Skrúðgarðurinn þar var eitt af helstu áhugamálum Friðriks V. sem lét drepa öll dádýr á svæðinu því að ungu trjáplöntunum stóð hvað mest hætta af þeim.

Johann Gottlob hafði á þeim tíma tekið við gróðrarstöðinni af föður sínum. Hann lét prenta söluskrár svo að hinir sterkefnuðu viðskiptavinir hans gátu séð hvað hann hefði á boðstólnum. Þær hafa varðveist í sérstöku skjalasafni konungs (d. Partikulærkammeret) sem snýr að skúffufé hans sem hann hafði út af fyrir sig og var óháð ríkissjóði. Titilsíðan á einum slíkum bæklingi er svohljóðandi:

Catalogus Von den ausserlesenen, besten, ein- und ausländischen Arten, Sowohl Hohe- Halbe- als Niederstämmige Frucht-Bäume, wie auch Plantagien-Bäume zu bekommen Bey Johann Gottlob Behrendts Lust-Gärtner. Wohnhaft auf Gros-Ravensburg vor dem Norder-Thor bey Copenhagen.

Skúli Magnússon hefur pantað upp úr sams konar bæklingi eins og sjá má af skjali mánaðarins en í skjalasafni landfógeta má finna pöntunarlista hans frá árunum 1776–1777. Þar má t.d. sjá að stikkilsberjarunnarnir dóu í hafi á leiðinni til landsins fyrra árið en komust heilir í höfn seinna árið. Þá fylgir jafnframt reikningur frá gróðrarstöðinni vegna pöntunar sem afgreidd var til Íslands 1766. Af samanburði við reikninginn frá 3. apríl 1777 og úttekt sem gerð var í ágústbyrjun sama ár má sjá að þau tré hafa verið gróðursett í Viðey.

Skúli hefur væntanlega komist í kynni við garðyrkjumennina á Stóru-Ravnsborg vegna þess að Jóni Grímssyni (um 1742–1803) var komið fyrir í læri hjá Johann Gottlob eins og sjá má af skýrslu Bjarna Pálssonar landlæknis, tengdasonar Skúla, til Landsnefndarinnar fyrri frá 14. maí 1771. Óvíst er nákvæmlega hvenær Jón var á Stóru-Ravnsborg en það var fyrir 1764 en það ár sneri hann aftur heim til Íslands. Skúli getur þess í bréfi til stjórnvalda, 6. apríl 1779, varðandi plóg sem keyptur var handa Páli Kolbeinssyni að sökum þess hversu lélegur Skúli hafi verið til heilsu hafi hann haldið sig fyrir utan Kaupmannahöfn. Þar hafi hann séð menn beita sams konar plógi og vildi meina að hann gæti sagt landsmönnum sínum fyrir um notkun hans eftir þá sýnikennslu. Hugsanlega bjó Skúli þá á Stóru-Ravnsborg.

Eftir fráfall Johanns Gottlob tók sonur hans Andreas við stjórnartaumunum á Stóru-Ravnsborg. Ólafur Snóksdalín var í vinnu hjá honum en breytir nafni hans lítillega, úr Behrendts í Bernsen, en í manntalinu 1787 er eftirnafnið reyndar fært til bókar sem Berntzen. Árið 1787 bjó Andreas á Stóru-Ravnsborg ásamt eiginkonu sinni og móður. Þar bjó þá einnig slátraraekkja ásamt tveimur börnum sínum og er sögð vera leigjandi þar. Það sýnir að þau hafa haft aukaherbergi í húsi sínu sem þau hafa leigt út og þar mun Skúli hafa búið veturinn 1784–1785. Það er þó spurning hvort þetta staðarval hafi einungis verið af heilsufarsástæðum heldur hafi verið ódýrara að leigja herbergi þar heldur en inni í bænum. Tengdasynir Skúla urðu allir gjaldþrota og sonur hans skildi sömuleiðis eftir sig miklar skuldir sem Skúli þurfti að standa skil á og þar að auki stóð hann í kostnaðarsömum málaferlum við Almenna verslunarfélagið vegna Innréttinganna. Hann hefur því þurft að draga saman seglin þegar kom að fjárútlátum enda fór svo að Skúli varð einnig gjaldþrota og hald var lagt á allar eigur hans og þær síðan seldar á uppboði árið 1794.

Hér má sjá uppdrátt af Stóru-Ravnsborg sem er strax á hægri hönd þegar komið yfir brúna sem skilur að Sortedams sø og Peblinge sø. Kortið er gert af P.H. Høyer árið 1817 og er geymt í borgarskjalasafni Kaupmannahafnar. Mynd tekin af alnetinu.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalanna.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer B8/8, örk 2. Skúli Magnússon landfógeti til det kongelige vestindiske og gvinæiske rente- samt general toldkammer, 6. apríl 1779. (Sjá skjal mánaðarins í mars 2021 á vef Þjóðskjalasafns Íslands).
  • RA. St. Petri tyske kirke. Enenesteministerialbog 1728VJ–1767VJ: 7. febrúar 1749.
  • RA. St. Petri tyske kirke. Enesteministerialbog 1728F–1756F, bls. 688, 728, 842, 944.
  • RA. St. Petri tyske kirke. Enesteministerialbog 1728D–1767D, bls. 386.
  • RA. St. Petri tyske kirke. Enesteministerialbog 1767D–1783D, bls. 172.
  • RA. St. Petri tyske kirke. Enesteministerialbog 1783D–1813D, bls. 199.
  • Anker, Jean, „Det nyere Frederiksdal med særligt hensyn til slottets bygningshistorie, (Fra arkivet paa Frederiksdal II)“, Historiske meddelelser om staden København og dens borgere 3. række, VI:1–3 (1943), bls. 112.
  • Björn Th. Björnsson, Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn. Reykjavík 1991, bls. 208.
  • Christensen, Annie, „Frederik V‘s hobby: Haven ved Fredensborg slot“, Fra kvangård til humlekule. Meddelelser fra Havebrugshistorisk selskab 11 (1981), bls. 35–45, bein tilvitnun af bls. 40.
  • Heide, Frits, Herregaardsgartner Christian Pedersen. En oversigt over hans arbejder særligt paa det historisk-botaniske omraade. København 1919, bls. 52, 59.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 123.
  • Jensen, Karsten Skytte, „Borgere, socialister og marskandisere i Ravnsborggade“, Nørrebro lokalhistoriske forening og arkiv. Årskrift 29 (februar 2016), bls. 10–11.
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, „Trjárækt í Viðey 1776–1777“, Skjal mánaðarins í júní 2012 á vef Þjóðskjalasafns Íslands.
  • Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, „Uppboðið í Viðey 1794“, Saga LVII:1 (2019), bls. 143–151.
  • Jón Jónsson [Aðils]. Skúli Magnússon landfógeti 1711–1911. Reykjavík 1911, bls. 290–305. Kjøbenhavns diplomatarium. Samling af dokumenter, breve og andre kilder til oplysning om Kjøbenhavns ældre forhold før 1728 VIII. Udgivet af O. Nielsen. Kjøbenhavn 1887, nr. 1059, bls. 656–657.
  • Landsnefndin fyrri 1770–1771 III. Bréf frá embættismönnum. Ritstjórar Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Reykjavík 2018, bls. 666.
  • „Æviágrip Ólafs Guðmundssonar Snóksdalíns ættfræðings. Eftir sjálfan hann.“ Blanda VIII (1944–1948), bls. 256–257.
  • Østergaard, Jens, „Løvenborg slotshave og dens gartnere, J.G. Scherg og søn, gennem 65 år, 1753–1818“, Fra Holbæk amt 2:15 (1957), bls. 26.
  • Vef. Dansk demografisk database. (Manntalið 1787: Andreas Bentzen. Í frumriti manntalsins sem sjá má á vef Ríkisskjalsafnsins stendur: Berntzen).
  • Vef. Þjóðminjasafn Danmerkur. Dagbók Peters Schiønning sjóliðsforingja 1732–1812. (https://natmus.dk/historisk-viden/temaer/militaerhistorie/soeofficeren-p...). (Sjá 9. júlí 1766, 22. júlí 1767, 13. ágúst 1767, 6. júlí 1768).

 

Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að hlaða niður uppskriftinni.

Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins
Heimild mánaðarins