Kvikmyndahandrit Sveins Sigurjóns Sigurðssonar

Mars 2015

Kvikmyndahandrit Sveins Sigurjóns Sigurðssonar

ÞÍ. Sveinn Sigurjón Sigurðsson (ritstjóri) 1890-1972. AA/1-3 og AB/1-1.

Kvikmyndagerð á Íslandi haslaði sér völl á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Íslendingar komust fyrst í kynni við lifandi myndir árið 1903, þegar D. Fernander og R. Hallseth sýndu slíkar myndir um sumarið það ár. Tilraunir með innlenda kvikmyndagerð hófust þegar þeir Peter Petersen, forstjóri Gamla bíós og þekktur sem Bíópetersen, og Alfred Lind urðu fyrstir til að sýna lifandi myndir frá Íslandi. Fyrst var kvikmyndin Slökkviliðsæfing í Reykjavík sýnd í tvær vikur í Gamla bíói árið 1906. Árið 1919 hóf Peter Petersen að kvikmynda ýmsa viðburði í þjóðlífinu og sýna í Gamla bíói. Peter hafði þá eignast sjálfur kvikmyndatökuvél og hélt hann áfram að mynda alveg fram undir 1930 þegar talmyndir komu til sögunnar[1].

Það er hægt að ímynda sér að lítið hafi verið um handritaskrif fyrir kvikmyndirnar sem Bíópetersen framleiddi á sínum tíma, en eins og segir að ofan þá myndaði hann ýmsa viðburði í þjóðlífinu og sýndi í Gamla bíói. Menn voru þó byrjaðir að þreifa fyrir sér í handritasmíð á þriðja áratug tuttugustu aldar og var til að mynda Halldór Laxness byrjaður að skrifa „filmleik“ þegar hann dvaldist í Leipzig árið 1922[2].

Heimild mánaðarins að þessu sinni er handrit að þögulli kvikmynd sem fannst í einkaskjalasafni Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, sem barst Þjóðskjalasafni Íslands í lok sumars árið 2014. Um er að ræða handrit að kvikmynd er nefnist Vitinn, eða The Beacon á enskri tungu.

Sveinn Sigurjón Sigurðsson fæddist á Þórarinsstöðum við Seyðisfjörð þann 8. desember árið 1890 og dó 26. mars 1972. Hans aðalstarf var ritstjórn tímaritsins Eimreiðin sem hann eignaðist síðan árið 1923. Eimreiðin var vinsælt og víðlesið tímarit á sínum tíma og fjallaði um framfaramál íslensku þjóðarinnar og ýmis menningarmál. Þar voru birt erlend ljóð, sögur og ritgerðir í þýðingu Sveins, sem var mikill tungumálamaður. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1918 og vann sem sem þingskrifari samhliða námi. Taldi hann sig hafa fengið þar „mikilsverða æfingu í ritleik og stílvöndun.“[3] Árin 1919-1920 bjó hann í Englandi og kláraði framhaldsnám í guðfræði og sálarfræði.

Handritið The Beacon fjallar um vitavörðinn Atla, sem lýst er sem sönnum afkomanda víkinganna, og líf hans ásamt konu og dóttur á Draugaeyju (e. Ghost-Isle). Í skjalasafni Sveins er einnig að finna handritið á íslensku, en ensku útgáfuna sendi Sveinn árið 1923 fyrirtækinu Palmer Photoplay Corporation til umsagnar ásamt leiðbeiningum.

Palmer fyrirtækið var stofnað árið 1918 og gaf sig út fyrir að undirbúa menn fyrir störf í Hollywood, sérstaklega í handritagerð. Fyrirtækið var svokallaður bréfaskóli (e. correspondence school) þar sem nemendur innrituðust og sendu inn allt að fimm handrit sem voru ritrýnd. Ef þau þóttu ásættanleg, voru þau seld áfram og fékk neminn 10% af verðinu í umboðslaun. Fyrirtækið reyndi líka fyrir sér í kvikmyndaframleiðslu sumarið 1922 og voru myndirnar sem komu frá fyrirtækinu kallaðar „Palmerplays“.

Ekki er vitað hversu umfangsmikið nám Sveins var hjá Palmer, en hægt var að velja um nokkrar leiðir í bréfanáminu. Við vitum þó að Sveinn sendi inn handritið að The Beacon til gagnrýni og í skjalasafni hans er svar frá skólanum (sjá myndir af því hér til hliðar). Undir svarbréfið frá Palmer ritar Scott O´Dell, en meðal þeirra sem leiðbeindu nemum og gagnrýndu handrit fyrir Palmer Photoplay Corporation var stórleikstjórinn Cecil B. Demille[4].

__________________

  1. Eggert Þór Bernharðsson, „Landnám lifandi mynda. Af kvikmyndum á Íslandi til 1930.“ Bls. 803-816.
  2. Vefur. „Halldór í Hollywood - Kvikmyndahandritið „Salka Valka“ birt í fyrsta sinn“.
  3. Þorsteinn Jóhannesson, „Sveinn Sigurjón Sigurðsson, ritstjóri“. Bls. 10-11.
  4. Morey, „„Have you the power?“ The Palmer Photoplay corporation and the film viewer/author in the 1920s“. Bls. 300-302.

Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Eggert Þór Bernharðsson, „Landnám lifandi mynda. Af kvikmyndum á Íslandi til 1930“, Heimur kvikmyndanna. Ritstj. Guðni Elísson (Reykjavík: Forlagið 1999), bls. 803-831.
  • Morey, Anne, „„Have you the power?“ The Palmer Photoplay Corporation and the film viewer/author in the 1920s“. Film history 1997, bls. 300-319.
  • Þorsteinn Jóhannesson, „Sveinn Sigurjón Sigurðsson, ritstjóri“, Íslendingaþættir Tímans 1. júní 1972, bls. 10-11.
  • Vefur. „Halldór í Hollywood - Kvikmyndahandritið „Salka Valka“ birt í fyrsta sinn“, Gljúfrasteinn www.gljufrasteinn.is/is/halldor_laxness/vi_og_verk_halldors_kiljans_laxn..., skoðað 20. feb. 2015.
Forsíða kvikmyndahandrits Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, The Beacon
Kvikmyndahandrit Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, The Beacon, síða 2
Kvikmyndahandrit Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, The Beacon, síða 3
Bréf Palmer Photoplay Corporation til Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, síða 1
Bréf Palmer Photoplay Corporation til Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, síða 2
Bréf Palmer Photoplay Corporation til Sveins Sigurjóns Sigurðssonar, síða 3