Kosningaréttur kvenna til Alþingis 19. júní 1915

Júní 2015

Kosningaréttur kvenna til Alþingis 19. júní 1915

ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I. skrifstofa. Db. 4, nr. 326. Stjórnskipunarlög um breytingu á stjórnarskrá (19. júní 1915).

Í ár er þess minnst með ýmsu móti að 100 ár eru liðin frá því konur fengu fyrst kosningarétt til Alþingis.

Þann 19. júní 1915 staðfesti konungur með undirskrift sinni stjórnskipunarlög um breytingar á stjórnarskrá þar sem konum og vinnuhjúum var veittur kosningaréttur til Alþingis við 40 ára aldur, en það aldurstakmark skyldi lækka um eitt ár næstu 15 árin.

Málið átti sér langa forsögu en þegar árið 1885 var fyrsta tillagan um kosningarétt kvenna til Alþingis flutt af Sighvati Árnasyni, þingmanni Rangæinga. Tillögunni var vísað frá af þingforseta sem stjórnarskrárbreytingu. Konur höfðu árið 1882 öðlast kosningarétt til hreppsnefnda, sýslunefnda, bæjarstjórna og safnaðarnefnda en urðu fyrst kjörgengar 1902.

Árið 1911 var lagt fyrir Alþingi stjórnarskrárfrumvarp sem fól í sér kosningarétt og kjörgengi kvenna til þingsins. Ekki bar mikið á andstöðu við kröfum kvenna og var frumvarpið samþykkt. Það hlaut þó ekki staðfestingu konungs og tafði einkum sambandsmál Íslands og Danmerkur fyrir því. Enn var lögð fyrir Alþingi, veturinn 1913-1914, tillaga um stjórnarskrárbreytingar sem meðal annars snéru að kosningarétti og kjörgengi kvenna til Alþingis. Stjórnarskrárbreytingin var samþykkt en sökum deilna um ríkisráðsákvæðið svonefnda dróst að konungur staðfesti breytinguna.

Einar Arnórsson, ráðherra heimastjórnarinnar, fór ásamt Klemens Jónssyni landritara til Kaupmannahafnar í júní 1915 með ýmis frumvörp sem Alþingi hafði samþykkt og þörfnuðust undirskriftar konungs. Meðal frumvarpanna var frumvarp um stjórnskipunarlög nr. 12/1915. Einar fékk breytinguna staðfesta með því að sniðganga ádeiluefnið um ríkiráðsákvæðið sem „formlegs-fræðilegs eðlis“. Þann 19. júní staðfesti konungur lögin með undirskrift sinni.

Konur unnu svo fullnaðarsigur 1920 þegar ný stjórnarskrá vegna sambandslaganna frá 1918 gekk í gildi og veitti konum fullt og skilyrðislaust jafnrétti á við karla um kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Frumskjalið með undirskrift Kristjáns X. má sjá á sýningunni „Vér heilsum glaðar framtíðinni“ í Þjóðarbókhlöðunni út þetta ár (2015). Sýningin er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, Alþingis, Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum, RÚV og Þjóðskjalasafns Íslands. Jafnframt sýningunni var opnaður vefurinn Konur og stjórnmál þar sem finna má sögulegt yfirlit og ýmsan fróðleik um réttindabaráttu og þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Hér er birt 10. grein stjórnskipunarlaganna nr. 12/1915 þar sem mælt er fyrir um kosningarétt kvenna.

10.gr.

6. gr. stjórnskipunarlaga 3. okt. 1903 (17. grein stjórnarskrárinnar), falli burt, en í staðinn komi:

Kosningarjett til óhlutbundinnar kosningar til Alþingi hafa karlar og konur, sem fædd eru hjer á landi eða hafa átt hjer lögheimili síðastliðin 5 ár og eru 25 ára, er kosningin fer fram; þó getur enginn átt kosningarjett, nema hann hafi óflekkað mannorð, hafi verið heimilisfastur í kjördæminu 1 ár og sje fjár síns ráðandi enda ekki í skuld fyrir þegin sveitarstyrk. Ennfremur eru þau skilyrði sett, að hinir nýju kjósendur, konur, og þeir karlmenn, er ekki hafa kosningarjett samkvæmt stjórnskipunarlögunum frá 1903, fái ekki rjett þann, er hjer ræðir um, öll í einu, heldur þannig, að þegar semja á alþingiskjörskrá í næsta sinn, eftir að lög þessi eru komin í gildi, skal setja á kjörskrána þá nýju kjósendur eina, sem eru 40 ára eða eldri, og að öðru leyti fullnægja hinum almennu skilyrðum til kosningarjettar. Næsta ár skal á sama hátt bæta við þeim nýjum kjósendum sem eru 39 ára, og svo framvegis, lækka aldursmarkið um eitt ár í hvert sinn, til þess er allir kjósendur, konur sem karlar, hafa náð kosningarjetti, svo sem segir í upphafi þessarar greinar.

Nú hafa hjón óskilinn fjárhag, og missir ekki konan kosningarjett sinn fyrir því.

Með sömu skilyrðum hafa karlar og konur, sem eru 35 ára eða eldri, kosningarjett til hlutbundinna kosninga. Að öðru leyti setja kosningalög nánari reglur um kosningar og um það, í hverri röð varamenn skuli koma í stað aðalmanna í efri deild.

Brynja Björk Birgisdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

Tillaga Einars Arnórssonar um breytingu á stjórnskipunarlögum. Samþykki konungs
Tillaga Einars Arnórssonar um breytingu á stjórnskipunarlögum.
Tillaga Einars Arnórssonar um breytingu á stjórnskipunarlögum.
Tillaga Einars Arnórssonar um breytingu á stjórnskipunarlögum.
Tillaga Einars Arnórssonar um breytingu á stjórnskipunarlögum.
Stjórnskipunarlög nr. 12/1915
Stjórnskipunarlög nr. 12/1915
Stjórnskipunarlög nr. 12/1915
Stjórnskipunarlög nr. 12/1915
Stjórnskipunarlög nr. 12/1915
Innsigli Alþingis Íslendinga