Íslenskur látúnssmiðsdrengur hrapar til bana í Kaupmannahöfn 1759
ÞÍ. Stiftamtmaður I, 12. Bréfabók 1758–1763, bl. 135r–v, 162r–v.
Að morgni 1. mars 1759 féll Jason Jónsson út um dyr á vörulofti (d. loftsluge) í húsi meistara síns, Caspar Friderich Noah látúnssmiðs (d. gørtler), á horni Gammelmønt og Myntergade í Kaupmannahöfn og lést. Hann mun hafa verið veikur í nokkra daga áður en ekki kemur fram hvort veikindin hafi átt þátt í slysinu, þ.e. hvort meistarinn hafi rekið drenginn úr rúminu til vinnu áður en hann var búinn að ná sér. Embættismaður á vegum skiptaréttarins í Kaupmannahöfn mætti á staðinn samdægurs og skrifaði upp og innsiglaði dánarbúið. Eftirlátnar eigur Jasonar voru kistill, hvít yfirhöfn og grænt vesti, loðkápa og skinnbuxur, tvö pör af gömlum stígvélum, hattur og tvö pör af sokkum, hálskragi, ermapar, hálsklútur og tvær skyrtur, þrjár gamlar íslenskar bækur og 13 ríkisdalir (rd.), 2 mörk (mk.) og 9 ½ skildingar (sk.) í reiðufé. Þá upplýsti Noah skiptaréttinn um að lærisveini sínum hefði nýlega tæmst arfur ofan af Íslandi, um 60 rd., sem væru í umsjá Marcus Pahl kaupmanns á Eyrarbakka.
Jason var sonur hjónanna Jóns Þorsteinssonar og Guðríðar Guðmundsdóttur og fæddur í Traðarholti í Stokkseyrarhreppi árið 1735. Jón (f. 1691) var sonur Þorsteins Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur í Sandlækjarkoti í Gnúpverjahreppi. Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi a.m.k. árið 1729. Guðríður var dóttir Guðmundar Jasonarsonar West og seinni konu hans Þórdísar Markúsdóttur sem kölluð var Stokkseyrar-Dísa. Afi Þórdísar var Torfi Erlendsson (1598–1665) sýslumaður í Árnessýslu en móðurbróðir hennar var Þormóður Torfason (1636–1719) konunglegur sagnaritari á Stangarlandi á eynni Körmt í Noregi. Guðmundur var sonur Jasonar West ensks kaupmanns og fálkafangara sem settist að á Snæfellsnesi og sór landvistareið á Alþingi sumarið 1635.
Óvíst er hvað Jason var búinn að vera lengi í látúnssmiðsnáminu en hann var 24 ára þegar hann lést og miðað við aldur hefur hann tæpast átt langt í það að ljúka námi. Foreldrar hans eru sagðir hafa látist fyrir nokkrum árum og fram kemur að Brynjólfur Sigurðsson sýslumaður hafi fengið Pahl kaupmanni arfinn í hendur árið 1758. Það ár hafa því annað hvort báðir foreldrar hans dáið eða þá það foreldri sem var eftirlifandi.
Þann 1. mars 1759 afhenti Pahl kaupmaður skiptaréttinum andvirði arfsins sem var 60 rd. í krónureikningi eða 63 rd., 4 mk. og 8 sk. í kúrantreikningi sem notast var við þegar um peningaviðskipti var að ræða. Hann sagði að sér hefðu verið fengnir þessir peningar til að skammta Jasoni smám saman þegar hann vanhagaði um eitthvað. Annars var Pahl kaupmaður ekki hátt skrifaður hjá Íslendingum og um miðja 18. öld kvað Eiríkur Rustikusson (1712–1804) um „Marcus Pahl, sem mörgu stal“. Eftirlátnar eigur Jasonar voru seldar á uppboði 24. ágúst 1759. Þrír Danir keyptu kistilinn og fatnaðinn og sá fjórði Johan Vordman keypti íslensku bækurnar en óvíst er hver hann var eða hvers vegna hann hafði áhuga á íslenskum bókum. Samtals var arfurinn því 79 rd., 5 mk. og 4 ½ sk. en þegar allir sem komu að skiptunum höfðu fengið sitt þá stóðu aðeins eftir 43 rd. og 95 sk. Til frádráttar kom einnig kostnaður við jarðarför Jasonar sem Noah látúnssmiður hafði séð um. Þá er einnig áhugavert að það voru prentaðar auglýsingar til þess að vekja athygli á uppboðinu og sömuleiðis skrá yfir þær fáu eftirlátnu eigur Jasonar sem átti að bjóða upp.
Engar upplýsingar er að finna í dóma- og þingbók Árnessýslu um þetta mál. Hins vegar er í skiptagögnunum afritað skjal sem sýnir að 10. eða 19. september 1759 var haldið þing að Skúmstöðum í Stokkseyrarhreppi. Óvíst er hvor dagsetningin er réttari og hvor er skrifaravilla en þær koma báðar fyrir í skjalinu. Sú fyrri í uppskrift á danskri þýðingu þinghaldsins (sem gerir hana líklegri til að vera rétta) og sú seinni síðar í skiptagerningnum þegar minnst er á það aftur. Þar var Magnús Þorsteinsson mættur og óskaði þingvitnis um skyldleika við bróðurson sinn Jason Jónsson. Þingmenn vitnuðu að Magnús væri skilgetinn bróðir Jóns Þorsteinssonar og að Jón væri faðir Jasonar. Þá kemur einnig fram að þeir bræður hefðu dvalið í Stokkseyrarþingsókn frá árinu 1729. Þingmenn vitnuðu ennfremur um fæðingarár og -stað Jasonar, að hann væri skilgetinn sonur foreldra sinna og að þau hefðu látist fyrir nokkrum árum. Einnig að Jason hafi alist upp hjá foreldrum sínum og verið eina barn þeirra. Þar með var staðfest að Magnús væri réttmætur erfingi bróðursonar síns.
Stiftamtmaður sat í Kaupmannahöfn fram til árins 1770. Sýslumaður skrifaði því Otto Mandrup Rantzau stiftamtmanni út til Kaupmannahafnar, 20. október 1759, og fól honum að hlutast til um að arfurinn yrði borgaður út af skiptaréttinum og sendur Magnúsi. Stiftamtmaður kom þessum upplýsingum áleiðis til skiptaréttarins með bréfi dagsettu 21. apríl 1760 og tveimur dögum síðar var skiptunum lokið. Rantzau fékk Niels Ryberg, umsjónarmanni konungsverslunarinnar, andvirði arfsins gegn ávísun sem hann sendi sýslumanni en hann varð að framvísa henni til þess að geta veitt peningunum viðtöku. Þann 30. júlí 1760 skrifaði sýslumaður svo stiftamtmanni og sendi honum ávísunina með áritun sinni og Magnúsar því til merkis að arfurinn hefði verið greiddur út en Thomas Windekilde kaupmaður á Eyrarbakka hafði flutt peningana frá Kaupmannahöfn.
Magnús Þorsteinsson (f. 1695) bjó í Traðarholti um hríð í kringum 1729 ásamt Jóni bróður sínum. Hann bjó á Grjótlæk í Stokkseyrarhreppi 1735–1753, sem er hjáleiga frá Traðarholti, og síðast á Foki í Hraunshverfi 1753–1762. Kona hans var Anna Brandsdóttir og áttu þau sex börn. Brynjólfur sýslumaður kallar Magnús „arm og meget fattig“ enda var hann barnmargur og hefur arfurinn væntanlega komið að góðum notum. Um miðja 18. öld var kýrverð um 4,5 rd. og því vantaði aðeins örlítið uppá að Magnús hefði getað keypt tíu kýr fyrir þær reytur sem Jason lét eftir sig.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfa og skipta á búi Jasonar Jónssonar sem varðveitt er í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn.
Heimildir
- ÞÍ. Stiftamtmaður I, 12. Bréfabók 1758–1763, bl. 135r–v, 162r–v.
- ÞÍ. Stiftamtmaður III, 132. Bréf sýslumanns í Árnessýslu til stiftamtmanns 1751–1785, örk 2: 1751–1785: 20. október 1759, 30. júlí 1760.
- RA (Rigsarkivet). Københavns Byting. Københavns Skiftekomission. Originale skiftebreve 1683–1781. Askja nr. 158, inniheldur mál nr. 54–68 frá árinu 1759. Mál nr. 66: Jason Joensen 1759.
- Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir IV. Með skýringum og viðaukum eftir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1909–1915, bls. 299–307.
- Finnur Sigmundsson, Rímnatal II. Reykjavík 1966, bls. 40.
- Guðni Jónsson, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi. Reykjavík 1952, bls. 137–139, 180, 257–258.
- Guðni Jónsson, Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka. Reykjavík 1958, bls. 72–73.
- Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar. Ensk-íslensk samskipti 1580–1630. Reykjavík 1999, bls. 273–274.
- Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 13.
- Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 24–25, 190–191.
- [Jón Þorkelsson], „Aldarhættir og ættjarðarvísur frá ýmsum tímum“. Almanak hins íslenzka Þjóðvinafélags 1914 40 (1913), bls. 13–17, sbr. bls. 16.
- Lýður Björnsson, Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til Iðnsögu Íslendinga XI. Reykjavík 1998, bls. 38.
- Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924–1947, bls. 533, 598.
- Vigfús Guðmundsson, Saga Eyrarbakka I, 1. Reykjavík 1945, bls. 285–290.
Smellið á tengilinn hér að neðan til að sækja skjal með uppskriftum bréfa og skipta á búi Jasonar Jónssonar.