Hvalbrot og blóðtökutygi
ÞÍ. Jarðaskjöl. A/21, örk nr. 15.
Guðmundur Hákonarson (d. 21. maí 1659) var sýslumaður í Húnavatnssýslu og klausturhaldari á Þingeyrum. Hann var sonur Hákonar Björnssonar sýslumanns í Nesi við Seltjörn og Solveigar Jónsdóttur, sýslumanns Marteinssonar. Guðmundur kvæntist Halldóru, dóttur Ara Magnússonar sýslumanns í Ögri og Kristínar Guðbrandsdóttur, biskups Þorlákssonar og voru börn þeirra: Þorkell sýslumaður á Þingeyrum, Helga sem átti Björn Magnússon sýslumann að Munkaþverá í Eyjafirði og Hákon. Guðmundur hafði lifandi áhuga á lögfræði, skrifaði sjálfur lögfræðiritgerð og hvatti aðra lögvísa menn til þess að tjá skoðanir sínar um lögfræðileg álitamál. Þá var hann mikill sællífismaður og gerði vel við sig í mat og drykk enda varð hann „[...] mjög þungfær og feitur með aldrinum; er það að orði gjört, að einn hans manna var svo þrekmikill, að hann bar Guðmund upp mjög örðuga brekku í Þingeyratúni að gamni sínu; er mælt, að Guðmundur hafi gefið honum fyrir það þrekvirki 1 hundrað.“
Það bréf sem hér er til umfjöllunar hefur Guðmundur skrifað Árna Daðasyni (1603–1703), lögréttumanni á Ásgeirsá í Víðidal, 19. febrúar 1658. Árni var sonur Daða Árnasonar lögréttumanns á Eyrarlandi í Eyjafirði og Kristínar, dóttur Jóns sýslumanns Björnssonar á Holtastöðum í Langadal. Kona hans hét Elín Pétursdóttir og bjuggu þau fyrst á Espihóli í Eyjafirði en fluttu að Ásgeirsá árið 1645. Bréfið inniheldur stutta orðsendingu um að Páll Pálsson á Másstöðum í Vatnsdal þurfi að láta taka sér blóð og biður Árna að finna sig. Í framhaldi af því er svo ívið lengri viðbót þar sem Guðmundur segist hafa heyrt af óánægju Árna með að hafa ekki fengið sex vættir af því hvalbroti, þ.e. hluta af hval, sem rak á land á Gnýstaðareka.
Sú óánægja var réttmæt því að þótt Gnýstaðir á Vatnsnesi væru Þingeyraklaustursjörð þá átti kirkjan á Ásgeirsá reka þar, hálfan viðreka og sex vættir af tvítugum hval eða meira, samkvæmt máldagabók Guðbrands biskups 1590–1616. Það er ljóst af bréfinu að Guðmundur hefur dregið lagalegt gildi máldagans í efa og væntanlega áformað að láta reyna á það fyrir dómstólum. Hann hefur þó ekki þorað annað en að láta Árna fá þær sex vættir af hvalbroti sem rekið hafði á land þá um veturinn. Árna hefur sjálfsagt ekki litist á blikuna að þurfa að eiga í deilum við Guðmund sýslumann og umboðsmanns sjálfs Danakonungs um rekaréttinn. Hann seldi því Ásgeirsá, 60 hndr. að dýrleika, ásamt Litlu-Ásgeirsá og eyðijörðinni Gaflkoti aðeins nokkrum mánuðum síðar eða 31. maí 1658. Þeir bræður Páll og Jón Þorlákssynir keyptu Ásgeirsá en Jón var faðir Páls Vídalín lögmanns. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir um Ásgeirsá: „Rekavon kirkjunnar fyrir Gnýstöðum á Vatnsnesi hefur ekki fengist, síðan Guðmundur Hákonarson hjelt Þíngeyraklaustur, en Árni Daðason átti Ásgeirsá.“
Þegar Árni seldi Ásgeirsá átti Guðmundur aðeins rúmt ár ólifað. Vorið 1658 þegar séra Þorkell Arngrímsson læknir kom heim frá Kaupmannahöfn leitaði Guðmundur til hans vegna veikinda sinna. Guðmundur þjáðist af sjúkdómi í hálsi sem olli þessum mikla matgæðingi erfiðleikum við að kyngja en banamein hans er talið hafa verið krabbamein í vélinda. Í lækningadagbók séra Þorkels kemur fram að Guðmundi hafi áður verið gefið uppsölulyf af ólærðum lækni eða skottulækni og þar má á öðrum stað sjá að séra Þorkell hafði heldur ekki mikið álit á bartskerum, þ.e. sáralæknum.
Víkur þá sögunni aftur til Páls á Másstöðum en hann var sonur Páls Guðbrandssonar, biskups Þorlákssonar, sýslumanns og klausturhaldara á Þingeyrum (1573–1621). Ekki liggur fyrir hvað amaði að honum en það hefur tæpast verið neitt alvarlegt því að hann lifði langa ævi og dó árið 1690. Það er athyglisvert að hann skuli biðja Árna að líta við hjá sér með blöðtökutygi sín því að hans er hvergi getið annars staðar í heimildum sem bartskera. Vitað er þó að bróðir Páls, Benedikt Pálsson (1608–1664), var bartskeri sem lært hafði í Hamborg. Honum var rænt í hafi af Algeirsmönnum 1633 en var sleppt úr haldi þeirra 1636 eftir að ættmenn hans höfðu greitt lausnargjald. Benedikt var klausturhaldari á Möðruvöllum í Hörgárdal og því of fjarri fyrir Pál að láta senda eftir honum. Þá var Þorleifur Daðason (d. um 1660), bróðir Árna, bartskeri sem lært hafði utanlands en andaðist í utanför síðar. Í Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar segir um Þorleif „[…] medicus dó í Hamborg.“ Hann mun hafa átt verðmæta bartskerakistu sem gæti bent til þess að hann hafi verið skipslæknir. Ekki er vitað til þess að Árni hafi farið utan til náms en hann hefur e.t.v. lært handtökin af Þorleifi bróður sínum.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfsins.
Heimildir
- ÞÍ. Bps. B. III, 2. Máldagabók Guðbrands biskups Þorlákssonar um alkirkjur í Hólabiskupsdæmi 1590–1616 m.m., bl. 16r. Annálar 1400–1800 I. Reykjavík 1922–1927, bls. 413 (Vallaannáll).
- Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir I. Reykjavík 1881–1884, bls. 548–554, bein tilvitnun af bls. 554; Sýslumannaæfir II. Reykjavík 1889–1904, bls. 649–651, bein tilvitnun af bls. 651.
- Einar Bjarnason, Lögréttumannatal. Sögurit 26. Reykjavík 1952–1955, bls. 12–13.
- Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I–V. Tínt hefur saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1948–1952; I, bls. 134–135; II, bls. 152; bls. IV, bls. 116; V, bls. 175.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 8. Kaupmannahöfn 1926, bls. 144–145, 238–240, bein tilvitnun af bls. 240.
- Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Gunnar F. Guðmundsson bjó til prentunar. [Kaupmannahöfn] 1993, bls. 196, 198.
- Koch, Friederike Christiane, Untersuchungen über den Aufenhalt von Isländern in Hamburg für den Zeitraum 1520–1662. Beiträge zur geschichte Hamburgs. Herausgegeben vom verein für Hamburgische geschichte. Band 49. Hamburg 1995, bls. 53, 84, 297.
- Lárus H. Blöndal og Vilmundur Jónsson, Læknar á Íslandi I. Inngangur – Læknatal (til 1964). Reykjavík 1970, 2. útg., bls. 22.
- Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi. Skýrt hefur og birt eftir kveri með rithendi Jóns Magnússonar á Sólheimum Vilmundur Jónsson landlæknir. Reykjavík 1949, bls. 203, 218–219, 269, 280, 355.
- Þorvaldur Thoroddsen, Landfræðissaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun og rannsóknir, fyrr og síðar II. Kaupmannahöfn 1898, bls. 56–58.
- Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I. Texti. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70. Reykjavík 2008, bls. 132–133, 138–139.
Smelltu hér að neðan til að sækja uppskrift skjalsins.