Hinn gleymdi sonur Skúla Magnússonar landfógeta. Björn Skúlason Thorlacius (1741–1804)

Júní 2020

Hinn gleymdi sonur Skúla Magnússonar landfógeta. Björn Skúlason Thorlacius (1741–1804)

Einkaskjalasafn. E.8. Skúli Magnússon landfógeti.

Skúli Magnússon landfógeti (1711–1794) og kona hans Steinunn (1709–1785), laundóttir séra Björns Thorlacius í Görðum á Álftanesi, eignuðust níu börn en af þeim komust sjö á legg. Í Þjóðminjasafni er varðveitt askja skorin í hnotu. Á loki hennar má finna fangamörk Skúla og Steinunnar og þar umhverfis upphafsstafi nafna allra sjö barna þeirra. Í aldursröð voru börnin: Jón aðstoðarlandfógeti (f. 1736), Guðrún eldri (f. 1740) átti Jón Snorrason sýslumann í Skagafjarðarsýslu, Björn (f. 1741) skipasmiður í Kaupmannahöfn, Rannveig (f. 1742) átti Bjarna Pálsson landlækni, Guðrún yngri (f. 1743) átti Jón Arnórsson sýslumann í Snæfellsnessýslu, Oddný (f. 1748) fyrri kona séra Hallgríms Jónssonar í Görðum á Akranesi og Halldóra (f. 1750) átti Hallgrím Bachmann lækni. Eins og sjá má þá fékk Jón gott embætti og dæturnar giftust heldri mönnum. Heilmikið er vitað um allt þetta fólk að Birni undanskildum. Hér er ætlunin að ráða bót á því og kynna til sögunnar hinn gleymda son Skúla landfógeta sem sigldi ungur utan til að læra skipasmíði og bjó alla sína ævi upp frá því í Kaupmannahöfn.

Björn fæddist árið 1741, líkast til á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð, en faðir hans var þá sýslumaður í Skagafirði. Skúli var svo skipaður landfógeti 9. desember 1749 og settist að í Viðey árið 1751. Þegar Björn var aðeins tólf ára gamall sigldi hann ásamt föður sínum til Kaupmannhafnar til að hefja iðnnám. Í Sauðlauksdalsannál segir við árið 1753: „Leigði Skúli enn timburskip að sækja við til Noregs og flytja til Íslands. Fór hann með því skipi til Íslands, en skildi eftir son sinn, Björn, í Höfn til að læra skipabygging.“

Jón, bróðir Björns, útskrifaðist úr Hólaskóla vorið 1753. Hans er ekki getið í annálsfærslunni en faðir hans sigldi aftur utan um haustið og þá hefur Jón væntanlega verið með í för því hann innritaðist við háskólann í Kaupmannahöfn 18. desember 1753 og útskrifaðist 8. nóvember 1755. Björn litli hefur því haft hald í því að vita af bróður sínum skammt undan meðan hann var að aðlagast lífinu í stórborginni. Auk þess var faðir hans tíður gestur í Kaupmannahöfn og er sagður hafa farið 18 ferðir þangað eftir að hann varð landfógeti.

Ungur aldur Björns vekur athygli en það var alls ekki óvenjulegt að piltar væru settir svo ungir til vinnu við skipasmíðastöð konungs á Hólminum en þeir yngstu kölluðust rúgdrengir. Þetta voru synir starfsmanna á Hólminum sem bjuggu í Nýbúðum, okkurgulum herskálum sjóhersins við Austurport, einnig kallaðir Nýbúðardrengir en þeir hófu störf átta ára gamlir. Nafnið rúgdrengur mun komið til af því að þeir voru ólaunaðir en unnu sér inn skammt af rúgi handa fjölskyldunni. Þeir unnu sig smátt og smátt upp og fengu að lokum starf á Hólminum ef allt gekk vel. Björn var þó aldrei rúgdrengur því að hann var færður til bókar sem skipasmíðadrengur 22. júní 1753. Skúli kom honum fyrir hjá Diderik de Thura (1704–1788), sem var yfir skipasmíðastöðinni á Hólminum, þar sem herskip konungs voru smíðuð, og þriðju eiginkonu hans Frederikke Christiane Scavenius. Honum auðnaðist ekki að eiga börn, sem upp komust, með eiginkonum sínum.

Diderik var ekki sá eini úr Thurafjölskyldunni sem hafði tengsl við Ísland því tveir bræður hans höfðu það einnig. Þannig samdi Jón Ólafsson úr Grunnavík rithöfundatal sitt fyrir bón Alberts Thura (1700–1740), prests í Lejrskov á Jótlandi en hann tók m.a. saman danska bókmenntasögu sem var gefin út árið 1722. Þá teiknaði Laurids de Thura (1706–1759), konunglegur húsameistari, Hóladómkirkju sem var í byggingu á árunum 1757–1763. Í bréfi sínu til kirkjustjórnarráðs, frá 13. júní 1757, gat hann um að hafa átt fund með Skúla landfógeta til að fræðast um staðhætti á Hólum en ekkert grætt á því þar sem Skúli hafði aldrei komið til Hóla því að hann hefði búið í 60 mílna fjarlægð frá biskupsstólnum. Það er einkennilegt þar sem Skúli var sýslumaður Skagfirðinga 1737–1749 og ráðsmaður Hólastóls 1741–1746. Ástæða þess að Diderik og Laurids höfðu „de“ milli eiginnafns og ættarnafns síns er sú að þeir voru aðlaðir 14. október 1740.

Diderik hóf feril sinn innan landhersins. Hann var laginn í höndunum og smíðaði líkan úr rafi af herskipinu Anne Sophie sem hann færði Friðriki IV. að gjöf árið 1723. Líkanið var í kjölfarið hengt upp í listasafni konungs. Konungur varð svo hrifinn af handaverki Dideriks að hann var hækkaður í tign og færður yfir í sjóherinn. Hann hafði þó ekki hlotið neina menntun sem laut að sjóhernaði en boð komu að ofan um að hann skyldi læra skipasmíði. Diderik fór í námsferð til útlanda árið 1724 en var kallaður heim árið 1728. Ári síðar var hann ráðinn til skipasmíðastöðvar konungs á Hólminum. Árið 1734 var hann svo hækkaður í tign og gerður að stöðvarstjóra og starfaði undir handarjaðri Knuds Nielsen Benstrup sem þá var yfir stöðinni. Það var svo árið 1738 sem Diderik var gerður að yfirmanni skipasmíðastöðvarinnar og átti að hafa yfirumsjón með hönnun og smíði herskipa konungs. Það kom hins vegar fljótt í ljós að hann var ekki starfi sínu vaxinn og þurftu menn að grípa til þess ráðs að selja herskip, sem hann hafði hannað, til Asíska verslunarfélagsins því að það þótti ekki nógu gott sjóskip. Í stað hans var fenginn franskur skipasmiður til að sjá um hönnun og smíði herskipa konungs. Diderik hélt þó titli sínum að nafninu til því hann naut hylli Kristjáns VI. konungs enda hafði hann verið á meðal kennara hans þegar hann var krónprins. Í september 1758 skipaði konungur Diderik yfirmann tollbúðarinnar í Kaupmannahöfn en í tómstundum sínum lagði hann stund á þýðingar á enskum trúarritum.

Skúli Magnússon greiddi Diderik 100 ríkisdali á ári m.a. fyrir fæði, húsnæði, fataþvott og eldivið handa Birni. Af fyrirliggjandi heimildum má sjá að Björn hafi komið til þeirra hjóna sumarið 1753 og verið þar a.m.k. fram á vor 1760 og e.t.v. lengur. Árið 1756 bjuggu Diderik og kona hans í Lillestrandstræde 102 (nú nr. 10) sem er hliðargata út frá Nýhöfninni. Húsið sem stendur þar enn í dag var byggt á fyrri hluta 18. aldar en fékk nýja framhlið árið 1888.

Það að starfa á Hólminum þýddi að viðkomandi var í sjóhernum og var mönnum þar skipað niður í deildir (d. division). Það var sitt hvor deildin fyrir stórskotaliða og matrósa með fjölda undirfylkja (d. kompagni). Svo voru iðnaðarmennirnir (d. håndværksstokken), þ.e. þeir sem smíðuðu herskip konungs, en árið 1787 voru þar fimm undirfylki og voru skipasmiðirnir í því fyrsta. Þann 30. mars 1776 var Björn skipaður meistari við skipasmíðaskólann (d. konstruktions skolen). Skólinn var stofnaður 1757 og var staðsettur úti á Nýhólmi við hliðina á slippnum eða bakkastokkunum þar sem herskipin voru smíðuð og þannig gátu lærlingarnir tekið þátt í smíðinni. Af iðnmeisturum á Hólminum voru tveir sem voru öðrum æðri að tign en það voru skipasmíðameistarinn og meistarinn við skipasmíðaskólann.

Ólafur Snóksdalín ættfræðingur (1761–1843) vann fyrir Skúla landfógeta, þegar hann var í Kaupmannahöfn 1784–1785, m.a. við skriftir og að stemma af útreikninga hans. Í æviágripi sínu kallar hann Björn Skúlason teiknimeistara sem er væntanlega íslenskun á tegnemester sem er maður sem kennir uppdráttarlist og vísar líklega til að Björn hafi m.a. kennt skipateikningu. Jón Espólín sýslumaður (1769–1836) titlar Björn hins vegar sem skipabyggingarmeistara og Bogi Benediktsson fræðimaður (1771–1849) sem konstruktionsmeistara við Hólminn í Kaupmannahöfn.

Óljóst er hvenær Björn fluttist í Nýbúðir en þar má finna hann árið 1776 og bjó hann þá í Kattegade 15 til gaden. Hverju húsi var skipt í tvennt og bjuggu tvær fjölskyldur þar; önnur til gaden en hin til gården, þ.e. ein hafði fremri hluta hússins til umráða og hin aftari hlutann og svo deildu þær eldstæði auk kamars sem var staðsettur að húsabaki. Þann 17. mars 1782 kvæntist Björn Kirstine Pedersdatter Grön (1742–1811) og voru þau gefin saman í Hólmsins kirkju sem var kirkja sjóhersins. Svaramaður Björns var Sigurður Þorsteinsson gullsmiður en svaramaður Kirstine var faðir hennar Peder Madsen Grön matrós. Þau eignuðust eina dóttur sem skírð var Steinunn, í höfuðið á ömmu sinni landfógetafrúnni í Viðey, en hún dó aðeins níu vikna gömul og fór útför hennar fram frá Hólmsins kirkju 17. maí 1783.

Haustið 1783 fluttu þau úr Kattegade yfir í Haregade 23 neden gaden, innan Nýbúðahverfisins, en þar bjuggu þau í hálfu húsinu, þ.e. á neðri hæð í tveggja hæða húsi. Þetta voru svokallaðar yfirmannaíbúðir (d. officerbolig). Í manntalinu 1787 má finna þau á sama stað og hjá þeim leigðu tengdaforeldrar Björns, Peder Madsen og Gertrude Allexandersdatter, auk þess sem þau höfðu þjónustustúlku eða vinnukonu Sigríði Markúsdóttur að nafni. Peder var 72 ára verkstjóri á konungsslúppunni sem var lítið einmastrað seglskip, nokkurs konar skipsbátur sem hægt var að sigla í land. Í manntalinu 1801 voru Björn og Kirstine enn á sama stað ásamt danskri vinnukonu, auk þess hafði ekkju, sem sögð var ölmusukona, verið komið fyrir hjá þeim til dvalar ásamt fjórum börnum hennar.

Fyrrnefnd Sigríður sigldi til Kaupmannahafnar og hóf nám 17. nóvember 1786 í vefsmiðju Arthurs Howden og taldist útlærð í spuna að loknu þriggja mánaða námi. Hún hafnaði boði hans um að gerast vefnaðarnemi því hún var veikbyggð og taldi sig ekki geta unnið slíka vinnu. Þess í stað réði hún sig í þjónustu Björns um páskaleytið 1787 en veiktist um sumarið og lá í sex vikur á sjúkrahúsi. Hún var enn hjá Birni veturinn 1788–1789 en veiktist aftur um vorið og lá þá í 30 vikur á spítala en fékk síðan vinnu þar næsta hálfa árið eftir að hafa náð heilsu. Hún fór svo aftur til Björns og var þar þegar hún skrifaði bréf til rentukammers, 1. mars 1790, en í því óskaði hún eftir að fá ókeypis far til Húsavíkur. Þar ætlaði hún að setjast að og kenna öðrum iðn sína. Svo virðist sem að Björn hafi skrifað bréfið fyrir hana en það er með sömu hendi og nákvæmlega eins upp sett og bréf hans til rentukammers frá 3. mars 1790. Sigríður sigldi heim og losnaði þannig úr loftslaginu í Kaupmannahöfn sem hún taldi orsaka vanheilsu sína. Hún giftist Páli Guðmundssyni að Brúnagerði í Fnjóskadal og í manntalinu 1816 má sjá að þau áttu níu börn saman.

Þann 29. janúar 1801 var heiðursmerki Hólmsins stofnað af Kristjáni VII. en svo hét orðan fram til ársins 1843 en upp frá því bar hún nafnið heiðursmerki fyrir góða þjónustu við sjóherinn. Árið 1802 var Birni veitt þetta heiðurmerki en það fengu aðeins þeir sem höfðu starfað á Hólminum í a.m.k. 25 ár og höfðu flekklausan feril að baki. Þann 1. febrúar 1804 lést Björn, 64 ára gamall, og var dánarorsökin sögð vera magabólgur (d. inflammation i maven) en útförin fór fram frá Hólmsins kirkju 6. febrúar 1804. Kirsten, eiginkona Björns, lést 5. júlí 1811 úr tæringu og bjó þá í Stokhuslængen nr. 483 sem í dag er hluti af Østervoldgade.

Þó svo að Björn hafi alið allan sinn aldur í Kaupmannahöfn þá hefur hann sjálfsagt umgengist Íslendinga í Höfn talsvert enda var hann meðlimur í Lærdómslistafélaginu, sem var stofnað árið 1779, eins og sjá má af meðlimaskrám sem fylgja ritum félagsins. Hann átti hlutabréf í Innréttingunum, nánar tiltekið tvo hluti, en þau mun faðir hans væntanlega hafa gefið honum. Þá stóð hann einnig í heilmiklum útréttingum fyrir föður sinn og tengdabræður sem milligöngumaður í samskiptum þeirra við stjórnardeildirnar í Kaupmannahöfn.

Uppdráttur frá 1793 af Nýbúðahverfinu í Kaupmannahöfn.

Uppdráttur frá 1793 af Nýbúðahverfinu. Kattagata er þriðja gata að neðan í götulengjunum lengst til vinstri. Héragata er svo fimmta þvergata að neðan í götulengjunum fyrir miðju. Hús númer 23 í Héragötu var endahús en er ekki lengur til því það þurfti að víkja þegar Krónprinsessugata var lengd til norðurs. Mynd tekin af alnetinu.

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta bréfanna.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer. B12/11, örk 40. Bréf Sigríðar Markúsdóttur, 1. mars 1790; örk 41. Bréf Björns S. Thorlacius, 3. mars 1790.
  • ÞÍ. Kirkjustjórnarráð. KI/13, örk 13. Bréf Laurids de Thura, 13. júní 1757.
  • RA. Holmens kirke (Bremerholm), 30. Enesteministerialbog 1778V–1787V, bls. 159.
  • RA. Holmens kirke (Bremerholm), 51. Enesteministerialbog 1761D–1813D, án blaðsíðutals en sjá 17. maí 1783 og 6. febrúar 1804.
  • RA. Holmens kirke (Bremerholm), 56. Enesteministerialbog 1811D–1813D, bls. 37, (nr. 258).
  • RA. Generalkomissariet (Søetaten). Nyboders kommandantskab. Husbøger for Nybodersbeboere 1770–1800 II, bls. 133, 218.
  • RA. Chefen for Orlogsværftet. Mandtalsbøger for håndværkerstokken 5. Mandtalsbog I, 1788, án blaðsíðutals en sjá fjórðu opnu.
  • Annálar 1400–1800 VI. Reykjavík 1987, bls. 437–438, bein tilvitnun af bls. 437 (Sauðlauksdalsannáll).
  • Bjarni Jónsson, Íslenzkir Hafnarstúdentar. Akureyri 1949, bls. 94.
  • Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir IV. Reykjavík 1909–1915, bls. 623–625.
  • Borg, E., Den danske marines uniformer gennem tre århundreder. København 1974, bls. 147.
  • Haugsted, Ida, Nyboder. Det frie folk 1750–1850. København 2012, bls. 13, 15, 28–31, 108, 122–125.
  • Hjort, Frederik, Beretning om slægten Thura gjennem 300 aar. Odense 1894, bls. 20–21, 27–35.
  • Holmens hæderstegn indstiftet 29. januar 1801. Fortegnelse over modtagere 1801–1950. Rigsarkivets 3. afdeling. Forsvarets arkiver. København 1989, án blaðsíðutals en í stafrófsröð.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 52–53, 273–244.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 IV. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1951, bls. 291–292.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1952, bls. 560.
  • Jón Espólín, Íslands árbækur í sögu-formi X. Kaupmannahöfn 1843, bls. 70.
  • Jón Espólín, Íslands árbækur í sögu-formi XI. Kaupmannahöfn 1854, bls. 22.
  • Jón Helgason, Jón Ólafsson frá Grunnavík. Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga V. Kaupmannahöfn 1926, bls. 177–205.
  • Jón Jónsson [Aðils], Skúli Magnússon landfógeti 1711–1911. Reykjavík 1911, bls. 113, 284–285.
  • Klem, Knud, „Holmens faste stok“, Handels- og Søfartsmuseet på Kronborg årbog 40 (1981), bls. 136, 142.
  • Lýður Björnsson, „Við vefstól og rokk“, Saga XXXV (1997), bls. 189, 192–193, 215.
  • Lýður Björnsson, Íslands hlutafélag. Rekstrarsaga Innréttinganna. Safn til Iðnsögu Íslendinga XI. Ritstjóri Ásgeir Ásgeirsson. Reykjavík 1998, bls. 56–57, 81, 83, 108–109, 138.
  • Oscar Clausen, „Dætur fógetans og tengdasynir“, Sögn og saga II. Reykjavík 1973, bls. 114–141.
  • Rasmussen, Frank Allan, „Fabrikmester Diderik de Thurah – et ikonografisk studie“, Marinehistorisk tidsskrift 21:1 (1988), bls. 6–7.
  • Richter, V, Den danske søetat 1801–1890. Personalhistoriske meddelelser. Kjøbenhavn 1894, bls. 117, þar ranglega nefndur Børge.
  • Seerup, Jakob, Søkadetakademiet i oplysningstiden. Marinhistoriske skrifter. København 2001, bls. 16.
  • Þorsteinn Gunnarsson, „Hóladómkirkja“, Kirkjur Íslands 6. Reykjavík 2005, bls. 166–174.
  • Þór Magnússon, „Öskjur úr eigu Skúla fógeta“, Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstjóri Árni Björnsson. Reykjavík 1994, bls. 94–95. Einnig má sjá myndir á https://www.sarpur.is.
  • „Æviágrip Ólafs Guðmundssonar Snóksdalíns ættfræðings. Eftir sjálfan hann.“ Blanda. Fróðleikur gamall og nýr VIII (1944–1948), bls. 256–257.
  • Vef. Dahl, Bjørn Westerbeek, Københavnske Jævnførelsesregistre 1689–2008. (www.kobenhavnshistorie.dk), sjá undir Sankt Anna Øster Kvarter.
  • Vef. https://www.ddd.dda.dk. Manntalsvefur danska ríkisskjalasafnsins.

Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskriftina.

 

Í heimildum má finna nafn Björns Skúlasonar skrifað á marga mismunandi vegu og má t.d. nefna eftirfarandi dæmi: Björn Magnus, Björn Magnusen, Björn Magnusen Thorlacius, Björn Magnus Thorlacius og Björn Thorlacius. Í bréfinu hér að ofan, frá 31. maí 1779, fer Björn fram á að þeir 50 ríkisdalir sem Jón Arnórsson sýslumaður hafi óskað eftir að fá greidda fyrirfram verði afhentir sér. Af undirskriftinni má sjá að hann mun sjálfur hafa skrifað sig Björn S(chulesen) Thorlacius, sbr. Rentukammer B8/9, örk 14.
Rúgdrengur (Nýbúðadrengur), eftir E. Schleisner frá því um miðja 19. öld. Mynd tekin af alnetinu.
Heiðursmerki Hólmsins. Það er úr silfri og á framhliðinni er krýnt fangamark Kristjáns VII. Þar fyrir ofan kemur fram hvenær heiðursmerkið var stofnað, þ.e. 29. janúar 1801 og þar undir stendur: „Fyrir góða þjónustu“. Á bakhliðinni stendur: „Verðskuldað“ og svo sveigjast eikarlauf þar um kring. Mynd tekin af alnetinu.