Út er komið fyrsta bindið í ritröðinni Yfirrétturinn á Íslandi - Dómar og skjöl á vegum Sögufélags og Þjóðskjalasafns Íslands. Forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, var afhent fyrsta eintakið af ritinu í Alþingishúsinu 30. september síðastliðinn.
Yfirrétturinn á Íslandi starfaði á árunum 1563–1800. Stefnt er að því að gefa út heildarsafn varðveittra gagna frá yfirrétti og aukalögþingum, en þau skjöl eru raunar hluti af sögu Alþingis hins forna. Áætlað er að þetta heildarsafn varðveittra gagna frá yfirréttinum komi út í átta bindum á næstu árum.
Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittir dómar og allmikið af málsskjölum yfirréttarins, sem bregða ljósi á stjórnsýslu, réttarfar og líf almennings á Íslandi á 18. öld. Einnig er nokkuð um málsskjöl í safni Árna Magnússonar frá málum sem hann og Páll Vídalín áttu að rannsaka og dæma í. Dómar þeirra flestir komu fyrir yfirrétt, svo sem í máli Jóns Hreggviðssonar. Einnig eru málsskjöl í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Árið 1990 lauk 17 binda útgáfu Alþingsbóka Íslands, sem hófst árið 1912. Gunnar Sveinsson, skjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands og útgefandi síðustu átta binda Alþingisbókanna, hóf þá uppskriftir yfirréttarskjala. Eftir lát hans árið 2000 tók Björk Ingimundardóttir skjalavörður við útgáfustarfinu og með henni síðustu ár hefur starfað Gísli Baldur Róbertsson sagnfræðingur.
Eftir tíu ára aðdraganda var síðan árið 2001 undirritaður samningur milli Sögufélags og forsætisnefndar Alþingis um að ráðist yrði í útgáfu yfirréttardóma. Hinn 13. mars 2009 var síðan gerður samstarfssamningur milli Sögufélags og Þjóðskjalasafns vegna útgáfunnar, en vinna vegna hennar hafði hafist á safninu allnokkru fyrr.
Í þessu fyrsta bindi verksins er fræðileg ritgerð eftir Björk Ingimundardóttur um sögu og starfsemi yfirréttarins, auk yfirlits yfir mál sem líklega hafa farið fyrir yfirrétt, en dómar og málsskjöl eldri en frá árinu 1690, og óyggjandi má telja upprunnin frá yfirrétti, hafa ekki varðveist. Fjöldi mynda af skjölum, innsiglum og undirskriftum eru birt í ritinu, auk nokkurra teikninga frá Þingvöllum frá fyrri öldum. Allmörg skjöl eru birt sem varpa ljósi á stofnun og starfsemi yfirréttarins. Megintexti bókarinnar er síðan dómar og málsskjöl frá árunum 1690-1710. Í viðauka eru birt ýmis skjöl sem bregða ljósi á málsatvik einstakra dóma og mála sem fyrir réttinn komu.
Fræðileg vinna við uppskriftir og frágang alls texta, auk annarrar vinnu sem tengist undirbúningi útgáfunnar, hefur verið í höndum starfsmanna Þjóðskjalasafnsins. Í ritstjórn, sem skipuð var 2008, sitja fyrir hönd Þjóðskjalasafns Íslands Hrefna Róbertsdóttir sem fer fyrir nefndinni og Eiríkur G. Guðmundsson, og fyrir hönd Sögufélags Anna Agnarsdóttir og Már Jónsson.
Ritið fæst í verslun Sögufélags í Fischersundi 3, þar sem opið er kl. 16-18 alla virka daga.