Næstkomandi laugardaginn 16. maí 2015 verður opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðu í tilefni af 100 ára kosningarétti kvenna. Við opnun sýningarinnar verður haldið málþing um þróun borgara- og þegnréttinda kvenna í 100 ár og stendur dagskráin frá kl. 13:00 – 17:00.
Erindi á málþinginu flytja Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, Björg Hjartardóttir, kynjafræðingur og Guðný Gústafsdóttir, kynjafræðingur. Jafnframt verður opnaður vefurinn konurogstjornmal.is.
Verkefnið er styrkt af Framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningarétt kvenna og er í samstarfi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns við Þjóðskjalasafn Íslands, Alþingi, RÚV og Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands.
Á sýningunni eru skjöl frá Þjóðskjalasafni Íslands. Meðal skjala frá safninu má nefna:
- Kjörskrá vegna alþingiskosninga 1911 og kjörskrá vegna alþingiskosninga 1916.
- Skjal um að konur ætli að stofna Landspítalasjóð til að þakka fyrir kosningaréttinn.
- Kjörbók með útstrikunum.
- Tillaga nefndar á Þingvallarfundi árið 1888 um að gefa kvenfrelsismálinu sem mestan gaum, undirskriftir Hannesar Hafstein, Skúla Thoroddsen og Pjeturs Jónssonar.