Útgáfu annars bindis ritraðarinnar Yfirrétturinn á Íslandi var fagnað í móttöku sem forseti Alþingis bauð til í gær í Skála Alþingis. Af því tilefni fluttu ávörp Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður og forseti Sögufélags, Gísli Baldur Róbertsson og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritstjórar og skjalaverðir í Þjóðskjalasafni og Viðar Pálsson dósent í sagnfræði.
Fyrsta bindi ritraðarinnar kom út árið 2011 og í því birtust skjöl frá yfirréttinum 1690-1710. Árið 2019 samþykkti Alþingi að styrkja áframhaldandi útgáfu í tilefni aldarafmælis Hæstaréttar Íslands árið 2020. Útgáfuverkefnið er til tíu ára og bindin verða alls tíu talsins með öllum tiltækum dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi og aukalögþinga.
Annað bindi ritraðarinnar Yfirrétturinn á Íslandi kom út í desember síðastliðnum og inniheldur dóma og skjöl yfirréttarins 1711–1715. Stór hluti skjalanna tengist rannsókn þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns á réttarfari á Íslandi. Í bindinu koma fyrir galdramál, meiðyrðamál, rekamál, deilt er um málsmeðferð, krafist embættismissis Páls Vídalíns, Oddur Sigurðsson varalögmaður er ákærður vegna framkomu hans við biskup í eftirlitsferð hans og dregnir fram athyglisverðir vitnisburðir um framferði Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups á Alþingi árið 1713.
Yfirrétturinn var stofnaður á Alþingi á Þingvöllum árið 1563 og starfaði til ársins 1800. Hann var æðsta dómsstig landsins fram að því að Landsyfirréttur var stofnaður í Reykjavík. Skjöl og gögn yfirréttarins eru því hluti af sögu Alþingis hins forna á Þingvöllum. Ákveðið var að gefa út bæði dómana sjálfa þar sem þeir hafa varðveist og málsskjöl þar sem þeim er til að dreifa. Með því fæst einstök innsýn í samfélagið á þessum tíma, aðstæður, stjórnun, stéttaskiptingu, ágreiningsmál og viðhorf.
Það er Sögufélag sem gefur út ritröðina í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Alþingi. Bækurnar eru fáanlegar hjá Sögufélagi: https://sogufelag.is/product/yfirretturinn-a-islandi-domar-og-skjol-ii-1711-1715.
Frétt á vef Alþingis um útgáfuna: https://www.althingi.is/tilkynningar/utgafu-annars-bindis-yfirrettarins-a-islandi-fagnad