Þjóðskjalasafnið fórnarlamb tölvuþrjóta

laugardagur, 27. ágúst 2011 - 22:45
  • Tölvuveira
    Tölvuveira

Skjalaskrár Þjóðskjalasafns voru settar á vef safnsins árið 2002. Umhverfi skránna og hugbúnaður hefur ekki verið endurnýjaður þótt það væri löngu komið á dagskrá. Öryggi skránna var því afar lítið og viðbúið að þær gætu orðið tölvuþrjótum að bráð. Það gerðist í janúar síðastliðnum. Þá var netþjónn sem birti skjalaskrár Þjóðskjalasafns yfirtekinn til þess að gera árás á aðrar vélar að því er virðist. Þetta uppgötvaðist fljótt og var þá slökkt á netþjóninum.

Ítrekað skal að skjalaskrár á vef safnsins eru afrit, engin frumgögn eru geymd í gagnagrunnum sem tengjast vefnum. Því er engin hætta á upplýsingatapi eða að öryggi gagna Þjóðskjalasafns sé stefnt í hættu.

Í framhaldinu var tekin sú ákvörðun að loka fyrir aðgang að skjalaskránni. Ekki var talið réttlætanlegt að setja gömlu skránar upp í gamla kerfinu enda líkur meiri en minni að þær hefðu fljótt orðið fyrir barðinu á töluvskemmdarvörgum. Það hafði verið ljóst að skipta þyrfti um umhverfi fyrir rafrænu skrárnar og vegna anna hafði ekki verið byrjað á þeim endurbótum. Nú var ekki annað hægt en að hefjast handa við endurnýjun skjalaskránna og var leitað fyrirmynda í Evrópu.

Byrjað var að vinna og útfæra nýju skjalaskrána strax í janúar. Smám saman varð verkið umfangsmeira en að var stefnt í upphafi og því hefur það dregist. En vilji er til þess að bæta þjónustuna gagnvart notendum í nýju kerfi. Stefnt er að því að opna nýja skjalaskrá á nýjum vef Þjóðskjalasafns fyrir lok ársins.

Í nýju skjalaskránni geta notendur skoðað uppbyggingu skjalasafna og leitað skjala með fjölbreyttari hætti en var. Vonast er til þess að einnig verði hægt að panta skjöl til skoðunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns í gegnum hið nýja kerfi er fram líða stundir. Í nýju skjalaskránni verða nærri 500 þúsund færslur í stað nokkurra tuga þúsunda sem voru í gömlu skránni. Þannig fá notendur safnsins betri þjónustu í nýjum skjalaskrám Þjóðskjalasafns áður en langt um líður.

Þjóðskjalavörður