Þjóðskjalasafn Íslands fagnaði 140 ára afmæli þann 3. apríl og var hátíðardagskrá af því tilefni í dag, 4. apríl. Stofnun Þjóðskjalasafns miðast við auglýsingu landshöfðingja um starfrækslu landsskjalasafns þann 3. apríl 1882. Í upphafi varðveitti safnið skjöl helstu embætta sem rúmuðust á dómkirkjuloftinu í Reykjavík. Nú er það til húsa í nokkrum byggingum að Laugavegi 162 og varðveitir um 46.000 hillumetra af pappírsskjölum um þrjú terabæt af rafrænum gögnum. Safnið gegnir mikilvægu hlutverki sem framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar og sem opinbert skjalasafn.
Hátíðardagskrá í tilefni afmælisins fór fram í húsakynnum safnsins að Laugavegi 162. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður, flutti ávarp í tilefni tímamótanna ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Skúla Eggerti Þórðarsyni, ráðuneytisstjóra, sem flutti ávarp fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðherra. Þá voru Hollvinasamtök Þjóðskjalasafns stofnuð formlega stofnuð og ný stefna Þjóðskjalasafns 2022-2027 kynnt. Hollvinasamtökin eru öllum opin og skráning fer fram í gegnum vef Þjóðskjalasafns. Gestum var að lokum boðið upp á léttar veitingar og að skoða sýnishorn af skjölum úr safnkosti Þjóðskjalasafns sem sett hafði verið upp vegna afmælisins.