Þjóðskjalasafn Íslands hefur ásamt samstarfsaðilum í Eistlandi og Svíþjóð fengið framhaldsstyrk til að vinna að verkefni til að auka aðgengi að opinberum upplýsingum í skjalasöfnum með rafrænum hætti. Styrkurinn nemur samtals 1.628.000 sænskum krónum og er til þriggja ára.
Forsaga málsins er sú að Þjóðskjalasafn Íslands tók á árinu 2011 þátt í samvinnuverkefni með Eistlandi og Svíþjóð um hvernig megi nýta rafræna þjónustu til að auka aðgengi að opinberum upplýsingum í stofnunum og skjalasöfnum. Verkefnið nefndist upp á ensku APIS - Access to Public Information in Govermental Agencies and Archvies. APIS-verkefnið var fjármagnað úr sérstökum rannsóknarsjóði landanna þriggja sem nefnist Citizen-centric eGovernment Services og er það sami sjóður sem hefur nú veitt framhaldsstyrk til að þróa verkefnið áfram. Þátttakendur í verkefninu eru auk Þjóðskjalasafns Íslands, Ríkisskjalasafn Svíþjóðar, Þjóðskjalasafn Eistlands, Viðskiptaskjalasafn Eistlands og Tækniháskólinn í Luleå í Svíþjóð. APIS-verkefninu lauk undir lok árs 2011 og má finna upplýsingar um verkefnið á vef verkefnisins.
Framhaldsverkefnið sem hlaut styrk nefnist á ensku You! Enhance Access to History - YEAH. Markmið verkefnisins er að þróa frumgerð af rafrænu kerfi sem gerir aðgang almennings að heimildum í skjalasöfnum aðgengilegri en nú er.
Nánari upplýsingar um styrkúthlutunina og önnur verkefni sem hlutu styrk úr sama sjóði er að finna á vef Rannís.