Þjóðskjalasafn Íslands tók formlega á móti afhendingu frá Orkustofnun á frumritum teikningasafns stofnunarinnar sl. þriðjudag. Í afhendingunni eru alls 45.000 teikningar sem unnar voru á vegum teiknistofu Orkustofnunar og forvera hennar á tímabilinu 1924-2001.
Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun er um að ræða einstakt heimildasafn um sögu íslenskra virkjana, jarðborana, vatnamælinga og jarðfræði, svo eitthvað sé nefnt. Teikningasafnið rekur uppruna sinn langt aftur eða til embættis landsverkfræðings, en teiknistofa var starfrækt eftir 1936 og sá stofan um gerð teikninga, korta, línurita, glæra, veggspjalda og annars myndefnis auk verkefna sem lutu að útgáfumálum. Safnið er bein afurð verka þeirra vísindamanna og brautryðjenda sem mörkuðu sín spor á uppvaxtarárum lýðveldisins. Safnið er ekki aðeins einstök heimild um frumskráningar og frummælingar á sviði stofnunarinnar og forvera hennar heldur einnig heimild um vinnubrögð, efnivið og tækni sem beitt var á hverjum tíma.
Orkustofnun hefur skannað inn allt safnefnið og gert aðgengilegt fyrir leit á vef stofnunarinnar þar sem finna má teikningar eftir efnisþáttum eins og titli, stærðarflokki, formi, tegund gagna, ártali og teikningarnúmeri. Um skráningu sá Þórunn Erla Sighvats, upplýsingafræðingur hjá Orkustofnun. Þá hefur efni safnsins einnig verið tengt að hluta við landfræðilegar gagnaþekjur í Kortasjá Orkustofnunar.
Samhliða afhendingu teikningasafnsins afhenti Orkustofnun einnig borskýrslusafn stofnunarinnar frá árunum 1922-2020. Afhendingar frá Orkustofnun er nú fjórar talsins í vörslu Þjóðskjalasafns. Af þeim eru þrjár afhendingar á pappírsskjölum og ein vörslútgáfa úr rafrænu gagnasafni (Kortasafnsgrunnur Orkustofunar).
Geta má þess að ársfundur Orkustofnunar fer fram fimmtudaginn 29. apríl, en þar eru á dagskrá erindi um teikningasafnið. Sjá nánar á vef stofnunarinnar.
Nánari upplýsingar um teikningasafnið má lesa hér:
- Um teikningasafn OS.
- Kortasjá OS – Borholur og ýmis gögn OS (jarðlagasnið).