Yfirrétturinn var æðsti dómstóll landsins á sinni tíð. Dómar hans, og ekki síður málsskjölin sem með liggja, eru ómetanlegar heimildir um íslenskt þjóðlíf þessa tíma. Skjölin eru heimildir um hugarfar, réttarfar, stéttaskiptingu, samgöngur og búskaparhætti svo eitthvað sé nefnt.
Fyrsta bindi Yfirréttardóma kom úr árið 2011, en síðan hefur orðið hlé á útgáfunni. Nú hefur Alþingi ákveðið að minnast aldarafmælis Hæstaréttar Íslands, sem stofnaður var árið 1920, með því að styðja við bakið á Þjóðskjalasafni og Sögufélagi við áframhaldandi útgáfu verksins.
Gert er ráð fyrir að heildarverkið verði 10 bindi. Áætlað er að annað bindið komi út árið 2021 og síðan komi bindi út árlega uns verkinu er lokið. Heimildirnar verða einnig birtar á stafrænu formi.
Þjóðskjalasafn þakkar Alþingi fyrir stuðninginn sem gerir safninu kleift að rækja hlutverk sitt í miðlun þeirra heimilda sem varðveita þjóðarsöguna.