Þjóðskjalasafn Íslands skilaði skjölum þýska ræðismannsins á Íslandi til Þýskalands í sérstakri athöfn sem fram fór í Safnahúsinu við Hverfisgötu í gær, þann 3. október. Skjölin voru upphaflega gerð upptæk þann 10. maí 1940 þegar Ísland var hernumið af Bretum og þegar breskt hernámslið yfirtók bústað þýska ræðismannsins að Túngötu 18 í Reykjavík. Skjölin eru frá tímabilinu 1927-1940 og eru varðveitt í fimm skjalaöskjum. Þau voru afhent Þjóðskjalasafni úr utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á árunum 1989-1990 en höfðu komist í vörslu ráðuneytanna eftir síðari heimsstyrjöld. Ótvírætt er að um þýsk skjöl er að ræða og því með réttu eign Þjóðverja. Ef styrjöldin hefði ekki brostið á hefðu þau verið flutt til Þýskalands og varðveitt þar.
Á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) er síaukin áhersla á að skoða hvar mikilvæg skjöl eiga að varðveitast til langframa, en stríð, nýlenduástand, sjálfstæði ríkja og fleiri atburðir hafa orðið til þess að mikilvæg skjöl sem tengjast ákveðnum löndum eru varðveitt á skjalasöfnum annarra landa. Skemmst er að minnast viðræðna Íslendinga allt frá upphafi 20. aldar um skil á mikilvægum skjölum um sögu Íslands fyrri alda og handritum bókmenntanna og þeirri þýðingu sem þau skjalaskil hafa haft fyrir þjóðina. Afhending danskra yfirvalda á miklu magni skjala árið 1928 tengdum sögu og stjórnsýslu Íslands frá miðöldum til aldamótanna 1900, og síðar stjórnarskránni, handritum og fleiri gögnum, hafa haft ómetanlegt gildi fyrir Ísland.
Í siðareglum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) er kveðið á um að skjalaverðir eigi að beita sér fyrir því að skila skjölum á þeirra réttu varðveislustaði. Alþjóðlegur sérfræðihópur um þessi málefni er leiddur af aðstoðarþjóðskjalaverði á Þjóðskjalasafni Íslands. Þjóðskjalasafn hefur því verið að skoða sinn eigin safnkost með þetta í huga.
Við athöfnina í gær skilaði Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður, skjölunum formlega til Þýskalands og tók Prof. Dr. Michael Hollmann, forseti Sambandsskjalasafns Þýskalands, við skjölunum. Hrefna og Prof. Dr. Hollmann fluttu ávörp ásamt Nirði Sigurðssyni, aðstoðarþjóðskjalaverði og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Þjóðskjalasafn Íslands hefur myndað öll frumskjölin og voru rafræn afrit jafnframt afhent til Þýskalands. Þjóðskjalasafn hefur birt skjölin á vef sínum þar sem allir geta skoðað þau, sjá hér.