Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður var í viðtali í fréttum RÚV klukkan níu í morgun og fjallaði um nýja eftirlitskönnun Þjóðskjalasafns á skjalavörslu og skjalastjórn ríkisins sem fram fór í febrúar 2020. Könnunin leiddi m.a. í ljós að víða er pottur brotinn í skjalavörslu ríkisins þó að eitt og annað sé þar á réttri leið. Það eru einkum heilbrigðisstofnanir, dómstólar og lögregluembætti sem standa illa þegar kemur að því að uppfylla lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn. Þá hefur Þjóðskjalasafn aðeins fengið gögn úr þremur prósentum rafrænna gagnakerfa og aðbúnaður í skjalageymslum er almennt ekki nægilega góður. Einnig er meðferð á tölvupóstum ábótavant.
Hrefna sagði að nauðsynlegt væri að ráðast í gríðarlegt átak í langtímavörslu rafrænna skjala og að ríkið þurfi að móta slíka stefnu. Hún benti á að jafnlaunavottun og persónuvernd sem dæmi um verkefni sem gangi upp þegar ríkið ákveður að láta til sín taka.
Hrefna minnti á að skjöl væru í rauninni minni samfélagsins og að opinberir aðilar beri ábyrgð á því að þau varðveitist. Nauðsynlegt sé að opinber skjöl til taks þegar á þeim þarf að halda. „Svo er hin hliðin, menningin og saga þjóðarinnar. Við varðveitum söguna okkar og hún er grundvöllur rannsókna“ sagði Hrefna að lokum.