Merkur áfangi náðist í rafrænni skjalavörslu í ágúst þegar Þjóðskjalasafn samþykkti notkun mennta- og menningarmálaráðuneytisins á rafrænu mála- og skjalavörslukerfi. Unnið hefur verið að varðveislu rafrænna gagna síðasta áratuginn hjá Þjóðskjalasafninu og liður í því var útgáfa reglna um rafræn opinber gögn sem birtust í Stjórnartíðindum í ágúst 2010. Samkvæmt þeim reglum ber öllum afhendingarskyldum aðilum að tilkynna sín gagnakerfi til Þjóðskjalasafns og vilji afhendingarskyldir aðilar afhenda skjöl sín á rafrænan hátt þarf að samþykkja notkun á viðkomandi kerfi fyrir rafræna skjalavörslu.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið tók þátt í tilraunaverkefni með Þjóðskjalasafni og hugbúnaðarframleiðandanum Hugvit árin 2005-2009 þar sem aðferðarfræðin við skil á rafrænum gögnum var prófuð. Þjóðskjalasafn heyrir einnig undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og er það því bæði viðeigandi og ánægjulegt að ráðuneytið sé fyrsti afhendingarskyldi aðilinn til að fá rafræna skjalavörslu samþykkta hjá sér.