Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést að kvöldi 11. maí sl. Ólafur var þjóðskjalavörður í rúm 27 ár, frá 1. desember 1984 til 31. maí 2012.
Ólafur gegndi starfi þjóðskjalavarðar lengur en nokkur annar sem hefur gegnt því embætti frá upphafi þess 1. janúar árið 1900. Ólafur var farsæll í starfi sínu. Undir hans forystu tók starfsemi Þjóðskjalasafns stakkaskiptum. Ólafur hafði frumkvæði að því að hús Mjólkursamsölunnar við Laugaveg voru keypt undir starfsemi safnsins. Þar óx safnið og dafnaði. Ólafur lagði mikla áherslu á að bæta skjalavörslu hins opinbera með því að láta setja nýjar reglur og leiðbeiningar um skjalahald og skjalavörslu og hafði þannig gagnger áhrif á þróun skjalamála í öllu landinu.
Ólafur var mjög virkur á alþjóðavettvangi fyrir hönd Þjóðskjalasafns og Íslands. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Alþjóða skjalaráðsins (ICA) um tíma og gegndi formennsku í nefndum á vegum þess.
Ólafur hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 1998, Chevalier d´ordre des Arts et des Lettres frá franska ríkinu 2005, Goda Diploma frá ríkisskjalasafninu í Litháen 2007 og Goldene Bundesabzeichen des Frankenbundes sama ár. Hann varð heiðursfélagi Alþjóða skjalaráðsins árið 2010 og var félagi í Vísindafélagi Íslendinga, Kungliga Samfundet för utgivande av handskrifter rörande Skandinaviens historia og Societa Italiana Di Demografica Storica.