Ný stefna fyrir Þjóðskjalasafn Íslands til næstu fimm ára var kynnt á 140 ár afmælishátíð safnsins þann 4. apríl sl. Stefnan, sem nær yfir árin 2022-2027, markar ákveðin tímamót í starfseminni með áherslu á stafræna umbreytingu. Upplýsingatæknisamfélag 21. aldar kallar á nýjar áherslur og nýjar lausnir í langtímavörslu skjala- og gagnasafna og miðlun upplýsinga til notenda. Þjóðskjalasafn Íslands sinnir bæði fortíð og framtíð - varðveitir heimildir um sögu og samtíma Íslands og sér um framkvæmd opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar. Starf safnsins hvílir því á tveimur meginstólpum. Minni Íslands úr fortíðinni er varðveitt í skjölum fyrri tíma og tryggir langtímaminni þjóðarinnar. Gögn og upplýsingar samtímans eru varðveittar til að tryggja hag stjórnsýslunnar og réttindi borgaranna. Hvort tveggja er mikilvægt fyrir framtíðina og verður ekki aðskilið.
Í stefnunni eru sett fram markmið og aðgerðir til að tryggja varðveislu og aðgengi að upplýsingum með aukinni áherslu á stafræna umbreytingu, hvort heldur það snýr að eldri safnkosti eða rafrænum gögnum sem verða til í samtímanum. Sjálfbærni í allri starfsemi safnsins er lykilþáttur til framtíðar. Starfsemi Þjóðskjalasafns til næstu fimm ára byggir á gildunum traust, fagmennska og framsýni. Með nýjum áherslum í stefnu safnsins til næstu fimm ára er hafin vegferð til að ná enn frekari árangri í stafrænum verkefnum samtímans og hyggst safnið með þeim leggja sín lóð á vogarskálarnar í vegferð ríkisins í stafrænni umbreytingu sem þegar er hafin og tryggja varðveislu á mikilvægum upplýsingum samfélagsins.