Norrænir menningarmálaráðherrar funduðu í Hörpu 28. apríl 2014 og undirrituðu m.a. yfirlýsingu um stuðning við alþjóðlega yfirlýsingu um skjalasöfn, sem samþykkt var á ársfundi Alþjóðaskjalaráðsins í Osló árið 2010 og sem aðalráðstefna UNESCO samþykkti síðan árið 2011. Í yfirlýsingunni segir m.a. að norrænu menningarmálaráðherrarnir séu sammála um að skjalasöfnin á Norðurlöndum gegni veigamiklu hlutverki í norrænum samfélögum og varðveiti menningararf þjóðanna. Þau varðveiti fortíð eða minni samfélaga og einstaklinga, réttindi þeirra og sögu. Skjalasöfnin eru mikilvægur þáttur í grundvelli lýðræðis í norrænu ríkjunum og ekkert getur komið í þeirra stað.
Í upphafi yfirlýsingar Alþjóðaskjalaráðsins segir: „Skjalasöfn varðveita ákvarðanir, aðgerðir og minningar. Skjalasöfn eru einstakur og óbætanlegur menningararfur sem hver kynslóð skilar annarri. Frá upphafi miðar starfsemi skjalasafna að því að varðveita gildi þeirra og merkingu. Þau eru traust uppspretta upplýsinga sem styrkir grundvöll ábyrgra og gagnsærra stjórnvaldsaðgerða. Þau gegna lykilhlutverki í þróun þjóðfélaga með því að vernda og viðhalda minni/þekkingu einstaklinga og samfélaga. Opinn aðgangur að skjalasöfnum auðgar þekkingu okkar á mannlegu samfélagi, eflir lýðræði, verndar réttindi borgaranna og eykur lífsgæði“.
Ríkisskjalaverðir Norðurlandanna áttu sama dag fund með menningarmálaráðherrum landa sinna og kynntu málefni skjalasafnanna.
Á sunnudeginum, daginn fyrir fundinn í Hörpu, fóru ríkisskjalaverðirnir, ásamt Eiríki G. Guðmundssyni þjóðskjalaverði og Hrefnu Róbertsdóttur sagnfræðingi, í sögugöngu um elsta hluta Reykjavíkurborgar. Einnig var landnámssýningin skoðuð og síðan endaði ferðin í Viðey þar sem Hrefna sagði frá klausturrústunum og sögu Innréttinganna og Viðeyjar. Tengsl Íslands og Danmerkur voru eins konar þema ferðarinnar.
Yfirlýsing um skjalasöfn (PDF 221 KB).