Norræni skjaladagurinn er á morgun, laugardaginn 8. nóvember. Þá sameinast skjalasöfnin, Þjóðskjalasafn og 20 héraðsskjalasöfn um land allt, um kynningu á starfsemi safnanna. Af því tilefni hefur verið opnaður sérstakur vefur, www.skjaladagur.is. Þar má sjá margvíslegan fróðleikur frá skjalasöfnunum sem tengist þema dagsins sem er „Vesturfarar“.
Auk þess hafa mörg skjalasöfn opið hús á þessum degi eða bjóða upp á sýningar eða aðra viðburði sem tengjast deginum, sjá yfirlit um dagskrá safnanna.
Í tilefni af norræna skjaladeginum verður Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús á lestrarsal safnsins á morgun. Verður tekið á móti gestum frá kl 13:00 - 16:00 á Laugavegi 162. Þar verður boðið upp á sýningu á skjölum sem tengjast Vesturheimsferðum og gestum gefinn kostur á að glugga í bækur um Vesturfara. Klukkan 14:30 munu Svavar Gestsson og Katelin Parsons kynna verkefnið: Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, sem er samstarfsverkefni Þjóðræknisfélags Íslendinga og Árnastofnunar.
Fylgist með og takið daginn frá fyrir skjalasöfnin.