Yfirlit um námskeið Þjóðskjalasafns Íslands í skjalastjórn og skjalavörslu fyrir veturinn 2014-2015 hefur verið birt á vef safnsins. Vegna framkvæmda við endurbyggingu á kennsluaðstöðu í Þjóðskjalasafni næsta vetur verður breyting á staðsetningu námskeiða og fjölda þeirra. Kennsla fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar við Arngrímsgötu 3. Þá verða námskeiðin færri en verið hefur undanfarin ár eða sjö talsins en breytt aðstaða býður hins vegar upp á aukinn fjölda þátttakenda á hvert námskeið.
Boðið verður upp á námskeið um alla helstu þætti í skjalastjórn og skjalavörslu stofnana, þ.e. um frágang pappírsskjalasafna, gerð málalykla og skráningu mála, tilkynningu rafrænna kerfa, afhendingu rafrænna gagna til Þjóðskjalasafns, skjalavistunaráætlun og hvernig megi bæta skjalavörslu stofnana, um grisjun skjala og skipulag rafrænna gagna.
Hér má lesa meira um námskeiðin, námskeiðsgjald og skráningu. Yfirlit um námskeiðin er einnig birt á forsíðu vefjarins undir fyrirsögninni Á döfinni.