Alþingi samþykkti þann 16. maí sl. lög um opinber skjalasöfn og taka þau við af lögum um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66 frá 1985. Ný lög taka þegar gildi.
Lagasetningin á sér nokkurn aðdraganda en árið 2008 skipaði menntamálaráðherra starfshóp til að vinna að heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands. Starfshópurinn skilaði af sér tillögu að frumvarpi árið 2010. Frumvarpsdrögin voru í vinnslu í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar til frumvarp var lagt fram á Alþingi vorið 2013, en fékk ekki umfjöllun. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði frumvarpið fram að nýju 18. desember sl. og varð það loks að lögum 16. maí.
Lög um opinber skjalasöfn eru mun efnismeiri um ýmsa þætti í starfsemi opinberra skjalasafna en eldri lög um Þjóðskjalasafn Íslands. Lögunum er ætlað að mynda heildstæðari ramma um upplýsingarétt almennings en verið hefur. Þannig er í fyrsta skipti að finna efnisreglur um inntak þess réttar sem almenningur og aðrir eiga um aðgang að skjölum í opinberum skjalasöfnum. Skýrari skilgreiningar eru á hverjir eru afhendingarskyldir aðilar og hverjar eru skyldur þeirra er varða skjalavörslu og skjalastjórn. Þá er jafnframt fjallað um söfnun og varðveislu einkaskjalasafna í lögunum. Refsiheimildir vegna brota á lögum um opinber skjalasöfn eru jafnframt nýmæli, s.s. er varðar þagnarskyldu og brot forstöðumanna stofnana á lögunum. Hlutverk stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands breytist verulega með nýjum lögum. Ný stjórnarnefnd skal skipuð sex fulltrúum og skal hún vera þjóðskjalaverði til ráðgjafar um starfsemi og stefnu safnsins í stað þess að hafa yfirumsjón með rekstri safnsins. Einnig verður sú breyting á störfum stjórnarnefndar að ákvörðun um grisjun opinberra skjala færist frá nefndinni til þjóðskjalavarðar.
Hér má lesa lagatextann á vef Alþingis.