Bók Kristjönu Kristinsdóttur fagstjóra hjá Þjóðskjalasafni, Lénið Ísland: Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra á 16. og 17. öld, er komin út. Útgáfuhóf var á Bessastöðum þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson veitti bókinni viðtöku. Hægt er að kaupa bókina hjá Sögufélagi og í bókabúðum.
Á 16. og 17. öld var Ísland lén í Danmörku og var rekstur þess og stjórnsýsla sambærileg við önnur lén innan danska ríkisins. Á þessu tímabili voru stigin fyrstu stóru skrefin í mótun ríkisvalds á Íslandi með styrkingu konungsvalds, þar sem einn lénsmaður fór með völd í landinu fyrir hönd konungs. Í bókinni er meðal annars leitað svara við spurningunum: Hverjir voru lénsmenn konungs á Íslandi og hvernig mótaðist stjórnsýsla konungs? Hvaða skjöl urðu til á tímabilinu við stjórn og rekstur lénsins Íslands og hvaða sögu segja þau?
Lénið Ísland er grundvallarrit um þetta áður lítt rannsakaða tímabil í sögu Íslands. Að þessu tilefni var Kristjana tekin tali í hlaðvarpi Þjóðskjalasafns og má hlusta á þáttinn hér á vefnum eða á helstu hlaðvarpsveitum.