Í gær, fimmtudaginn 2. febrúar 2017, kl 16:30, voru kynntar tilnefningar Hagþenkis til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 í Grófarhúsi við Tryggvagötu í Reykjavík. Tíu rit eru tilnefnd og þeirra á meðal Landsnefndin fyrri 1770–1771. Den islandske Landkommission 1770–1771, I og II í ritstjórn Hrefnu Róbertsdóttur og Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur. Ritröðin er gefin út af Þjóðskjalasafni Íslands í samstarfi við Sögufélag. Í umsögn dómnefndar segir að um sé að ræða einstaklega vandaða útgáfu á frumheimildum um íslenskt samfélag á 18. öld með ítarlegum inngangi og orðskýringum. Vefur um útgáfuverkefnið með margvíslegu efni gefur verkinu aukið gildi.
Tilnefningarnar voru kynntar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið en Viðurkenning Hagþenkis 2016 verður veitt í Þjóðarbókhlöðunni um næstu mánaðamót.