Á haustmánuðum heimsótti Karen Sigurkarlsdóttir, starfsmaður Þjóðskjalasafns Íslands, ríkisskjalasöfn Danmerkur og Svíþjóðar á vegum NORUT, Norrænna starfsmannaskipta, sem Norræna ráðherranefndin styrkir. Karen er fagstjóri varðveislu á Þjóðskjalasafni og kynnti sér forvörslu á söfnunum í nágrannalöndunum en eitt af því sem hún fékk að skoða var gríðarstórt skinnkort af Íslandi frá 1734 eftir Thomas Hans Henrik Knoff, sem varðveitt er í danska ríkisskjalasafninu.
Kortið er einstaklega fallegt og meðal annars sérstakt fyrir stærð sína en líklega hefur þurft skinn af fjórum skepnum í kortið. Einnig er á kortinu ítarleg skrá yfir alla bæi á landinu. Búið var að flytja kortið á forvörsluverkstæði konunglega bókasafnsins þar sem það þarfnast viðgerðar, slétta þarf úr skinninu og meðhöndla til þess að festa litina sem eru lausir á yfirborðinu. Að því verki loknu þarf að sérhanna umbúðir utan um kortið svo að vel fari um það í framtíðarvarðveislu.
Norræn starfsmannaskipti eru mikilvægur vettvangur starfsfræðslu og faglegra samskipta en Norðurlöndin geta lært mikið hvert af öðru, auk þess sem starfsmannaskipti hvetja til samstarfs á milli stofnana og landa.