Vakin er athygli á rannsóknarverkefni sem hleypt hefur verið af stokkunum í Þjóðskjalasafni. Markmiðið með verkefninu er að taka fyrir helstu embætti Íslands allt frá árinu 1550 og kryfja heimildir og skjöl sem eftir embættin liggja samkvæmt skjalfræðilegum reglum þ.e. upprunareglu. Einnig verður embættisfærsla hvers embættismanns skoðuð, auk þess sem lagðar verða línur um nýskráningu þessara safna.
Þetta er grunnrannsókn sem mun auka skilning á heimildum sem liggja eftir hvern embættismann og þannig auðvelda og auka rannsóknir á skjölum og sögu hvers tímabils.
Aðferðafræði verkefnisins byggir á upprunareglu, eins og áður segir, sem er grunnvinnuregla við skjalavörslu. Hún felur í sér að hverju skjalasafni er haldið fyrir sig og virða á innri röð skjala í hverju skjalasafni. Vegna þessa er spurt um hvern skjalaflokk þegar unnið er með skjalasöfn, hver er tilurð þess að skjölin urðu til, hver er uppbygging skjalaflokkins/skjalanna, hver eru helstu einkenni skjalaflokksins/skjalanna og hvert er innihaldið auk þess sem athugað er hvort skjölin eru frumrit eða afrit. Þeir efnisþættir sem verkið byggir á eru því eftirfarandi:
- Inngangur með yfirliti yfir stjórnsýslusögu embættisins auk greinargerðar um embættisfærslu. Embættisbréf fylgiskjal.
- Dæmi um skjal/heimild. Inngangur með almennri umfjöllun um hana. Uppbygging hennar og innihald.
- Athugasemdir um heimildina. Hver eru einkenni hennar?
- Lagagrundvöllur heimildar. Hvenær hófst hún og hvenær lauk henni?
- Notkunarmöguleikar. Í hvaða rannsókn er hægt að nota heimildina/skjalið?
- Hvar finnst heimildin? Á hvaða safni?
Á vef Þjóðskjalasafns hafa þegar verið birtar tvær rannsóknir sem tengjast þessu verkefni.
- Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Embættisskjöl og embættisfærsla landshöfðingja á Íslandi 1873 til 1904.
- Ólafur Arnar Sveinsson. Leiðarvísir fyrir dóma– og þingbækur í skjalasöfnum sýslumanna í Þjóðskjalasafni Íslands.
Næstu skref eru rannsókn á skjalasöfnum og embættisfærslu stiftamtmanna frá 1770-1904 og jafnframt er stefnt að rannsókn á skjalasöfnum amtmanna 1688-1770.