Fjórða tölublað Nordisk Arkivnyt á árinu 2015 kom út rétt fyrir jólin. Tímaritið er 52 blaðsíður og inniheldur athyglisverðar greinar um margvísleg efni á vettvangi skjalasafna og skjalavörslu frá skjalasöfnum á öllum Norðurlöndunum.
Í aprílmánuði árið 2014 var á þessum vef frétt um umsókn Ríkisskjalasafns Finnlands og Skjalasafns Sama um að skjalasafn Skolt Sama verði fært í skrá UNESCO um minni heimsins (World Memory), en Handritasafn Árna Magnússonar og Manntalið 1703 eru fulltrúar íslenskra menningarverðmæta á þeirri skrá. Pertti Hakala ritar grein um umsóknina þar sem fram kemur að umsóknin var samþykkt 9. október 2015 og er full ástæða til að óska Finnum og Sömum til hamingju með það. Þar með eiga Finnar þrjár færslur á þessari merkilegu skrá um minni heimsins.
Á íslenskum vettvangi ritar Hrefna Róbertsdóttir um útgáfu skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 sem Þjóðskjalasafn Íslands og Sögufélag gefa út í sameiningu með myndarlegum styrk frá Augustinus sjóðnum danska. Útgáfan hefur áður verið styrkt af Rannís og Letterstedska föreningen. Ritstjórar eru Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Sjá frétt um útgáfuna.
Þá er einnig fjallað um ráðstefnu Alþjóða skjalaráðsins í Reykjavík 28. – 29. september 2015 og Snorri Guðjón Sigurðsson héraðsskjalavörður ritar um Héraðsskjalasafn Þingeyinga.
Loks má nefna að í blaðinu er efnisyfirlit yfir 60. árgang Nordisk Arkivnyt (árið 2015).