Þjóðskjalasafn Íslands hefur samþykkt málaleitan Landssambands íslenskra frímerkjasafnara að lána til norrænu frímerkjasýningarinnar NORDIA 2013 veglegan hluta af frímerkjasafni því sem er í vörslu þess. Um er að ræða afar fágæt og ómetanleg frímerkt umslög og bréf sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir áður og eru sum þeirra þau elstu sem varðveist hafa hérlendis. Eiríkur G. Guðmundsson, þjóðskjalavörður, og Sigurður R. Pétursson, formaður Landssambands íslenskra frímerkjasafnara, handsöluðu í dag samkomulag þar að lútandi.
Flest elstu frímerkjanna hafa varðveist sökum þess að frímerkin voru límd á bréfin sjálf sem brotin voru saman og lokað með lakkinnsigli. Bréf sem send voru embættismönnum voru síðan geymd í skjalasöfnum þeirra eins og opinber fyrirmæli kváðu á um. Nokkur bréfanna eru með einstökum frímerkjum þ.e. einu þekktu merkjunum í heiminum.
„Þjóðskjalasafn er stærsta safn frumheimilda um sögu íslensku þjóðarinnar og þróun byggðar og mannlífs í landinu og er þess vegna sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi hér á landi byggja á. Safninu er skylt að veita aðgang að skjölum í vörslu safnsins og stuðla að fræðilegum rannsóknum á sögu þjóðarinnar. Þjóðskjalasafni Íslands er það ánægjuefni að geta veitt íslenskum almenningi aðgang að því merka frímerkjasafni sem það varðveitir með því að lána sérvalinn hluta þess á NORDIA 2013. Frímerki og frímerkt bréf fela í sér dýrmætan hluta menningararfsins og segja ríkulega sögu sem mikilvægt er að sem flestir geti notið við kjöraðstæður,“ segir Eiríkur G. Guðmundsson, þjóðskjalavörður.
„Þetta samkomulag markar mikil tímamót. Það er í senn einstakur heiður fyrir LÍF og mikið gleðiefni að Þjóðskjalasafn Íslands skuli veita gestum NORDIA 2013 aðgang að sínu stórkostlega frímerkjasafni. Um er að ræða óviðjafnanleg menningarverðmæti og okkur hefur lengi dreymt um að fá heimild til að sýna rjómann af þessu mikla safni opinberlega. Vonandi munu sem flestir nýta sér þetta tímabundna og sjaldgæfa tækifæri til að berja frímerkin augum, ásamt þeim mikilvægu söfnum öðrum sem á NORDIA 2013 er að finna. Að viðbættum söfnum Indriða Pálssonar og Douglas Storckenfeldt gefst almenningi kostur á að sjá á NORDIA 2013 heildstæðara safn íslenskra frímerkja frá fyrstu áratugum íslenskrar frímerkja en nokkurn tímann hefur sýnt áður á einum stað,“ segir Sigurður R. Pétursson, formaður Landssambands íslenskra frímerkjasafnara.
Sagan í hnotskurn
Opinber póstþjónusta hófst á Íslandi með póstreglugerð frá 13. maí 1776. Póstferðir hófust þó ekki fyrr en 1782. Frímerkjaútgáfa hófst hér á landi með tilskipun um póstmál 26. febrúar 1872. Fyrstu íslensku frímerkin, skildingafrímerkin, tóku gildi 1. janúar 1873 og fagnar íslensk frímerkjaútgáfa því 140 ára afmæli á þessu ári. Skildingafrímerkin urðu ógild haustið 1876 þegar auramerki komu í staðinn. Besta safn þessara elstu frímerkja er í vörslu Þjóðskjalasafns, þar sem varðveittur er fjöldi gamalla og sjaldgæfra frímerkja frá fyrstu árum íslenskrar frímerkjasögu.
Frímerki í vörslu Þjóðskjalasafns
Árið 2003 var gert samkomulag um varðveislu frímerkja og póstminja er tengjast frímerkjaútgáfu milli Íslandspósts og Þjóðskjalasafns, fyrir atbeina þáverandi samgönguráðherra. Um var að ræða söfn og gögn sem Íslandspóstur hafði tekið við frá Póst- og símamálastofnun eftir sameiningu þeirra. Af þessu leiðir að safnið geymir flest þau frímerki og gögn þeim tengdum sem varðveist hafa frá fyrri tíma. Frímerkt íslensk sambrot og umslög úr skjalasafni Landfógeta sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands eru meðal annars skildingabréf, þjónustuskildingabréf, aurabréf, þjónustuaurabréf, bréf með merkjum Kristjáns konungs IX, og tveggja konunga bréf frá 1907-18. Þessi sambrot og umslög hafa starfsmenn hafa tekið út úr skjalasöfnum sem þeir hafa gengið frá eða unnið með. Hafa ljósrit verið sett í stað frumbréfa í skjalasöfnunum og upprunaupplýsingar látið fylgja bæði bréfum og umslögum þegar þau voru látin í frímerkjasafn Þjóðskjalasafns. Með þessum hætti hefur orðið til í Þjóðskjalasafni harla gott safn þjónustufrímerkja. Sýning á þjónustufrímerkjum var áður töluvert vandamál því að þjónustufrímerki voru aðeins notuð á embættisbréf og því fágæt.
Safn Hans A. Hals
Einnig má nefna safn íslenskra frímerkja úr einkaeigu sem kennt er við safnara og fyrri eiganda, Hans Andreas Hals, sem var norskur stórkaupmaður með búsetu í Stokkhólmi. Safnið, sem talið er eitt hið merkilegasta safn íslenskra frímerkja er verið hefur í einkaeigu, er varðveitt í 42 albúmum upp á um 2.200 blaðsíður og nær til ársins 1944. Það var keypt á árinu 1946 og var kaupverðið um 100.000 sænskar krónur eða talið jafnvirði eins Svíþjóðarbátanna sem Nýsköpunarstjórnir undir forystu Ólafs Thors lét smíða og þá var verið að flytja til landsins. Safn Hals er mjög vandað og geymir einkar glæsilegt úrval ónotaðra og notaðra merkja auk umslaga sem út komu fyrir 1920. Örlítið brot úr safni Hans Hals var sýnt í heiðursdeild á Nordia 2009, nánar tiltekið frímerki með Kristjáni konungi IX, og hlaut þar gullmerki. Til gamans má geta að Þjóðskjalasafnið lét skanna inn frímerkjasafn Hals á árunum 2009 og 2010, alls 2.241 myndir.
Gríðarlegt menningargildi
Þjóðskjalasafnið varðveitir líka sérstakt safn merkja stimpluðum með tölustimplum, safn heilpósts af öllum gerðum, auk safns falsana á frímerkjum og yfirprentunum, svo fátt eitt sé nefnt. Þeir safngripir sem með samkomulaginu 2003 voru afhentir Þjóðskjalasafni til varðveislu hafa geysilegt menningarsögulegt gildi.
Sýningin fer fram í íþróttahúsinu Ásgarði í Garðabæ og eru hún opin föstudag 7. júní kl 13:00 - 18:00, laugardag 8. júní 10:00 - 17:30 og sunnudag 9. júní 10:00 - 16:00.