fimmtudagur, 27. ágúst 2020 - 14:15
Vegna frétta í fjölmiðlum og yfirlýsingar Verðlagsstofu skiptaverðs á vef stofnunarinnar 25. ágúst sl. um tilurð skjals sem fannst nýlega á aflögðu gagnadrifi stofnunarinnar hefur Þjóðskjalasafn Íslands hafið athugun á hvort að skjalavarsla og skjalastjórn Verðlagsstofu skiptaverðs sé í samræmi við lög.
Samkvæmt 4. tl. 13. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn skal Þjóðskjalasafn Íslands hafa eftirlit með framkvæmd afhendingarskyldra aðila á lögunum. Í samræmi við það hefur Þjóðskjalasafn óskað eftir nánari upplýsingum um skjalavörslu og skjalastjórn hjá Verðlagsstofu skiptaverðs.
Umrætt skjal, sem á uppruna sinn hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, hefur verið í fréttum undanfarið vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um Samherja.