Í júlí síðastliðnum ákvað valnefnd Alþjóða skjalaráðsins (ICA) að þiggja boð Þjóðskjalasafns Íslands um að halda árlega ráðstefnu ICA í Reykjavík dagana 18. til 22. september 2015. Við ákvörðunina var litið til þess að Þjóðskjalasafn Íslands sá um að halda CITRA ráðstefnu á Íslandi í september 2001 og stjórnarfund Alþjóða skjalaráðsins í mars 2007 með frábærum árangri.
Ráðstefnan er umfangsmikil og gera má ráð fyrir að allt að 400 gestir sæki hana víðsvegar að.
Alþjóða skjalaráðið metur það svo að Reykjavík sé vel í stakk búin með alla nauðsynlega grunnþjónustu til slíks ráðstefnuhalds og einnig séu flugsamgöngur góðar bæði til Evrópu og Norður-Ameríku.
Í ár er ráðstefnan haldin í Girona á Spáni dagana 13. -15. Október og yfirskrift hennar að þessu sinni er Skjalasöfn og menningariðnaður (Archives and Cultural Industries).