Þjóðskjalasafn hefur undanfarna mánuði verið þátttakandi í samevrópsku verkefni sem nefnist APEx (The Archives Portal Europe network of exellence). Markmið verkefnisins er að þróa skjalagátt þar sem finna má upplýsingar um safnkost evrópskra skjalasafna. Nú í janúar var opnuð fyrsta útgáfa þessarar skjalagáttar á vefslóðinni www.archivesportaleurope.net.
Þjóðskjalasafn Hollands hefur umsjón með APEx verkefninu sem 29 aðilar víðs vegar um Evrópu taka þátt í, aðallega þjóðskjalasöfn þátttökulandanna. Þátttakendur hafa mismunandi hlutverki að gegna, sumir leggja til vinnu við þróun mismunandi verkeininga á meðan aðrir leggja eingöngu fram efni og er Þjóðskjalasafn Íslands í þeim hópi.
Í dag er hægt að leita á skjalagáttinni í yfir 20 milljónum færslna frá 85 skjalavörslustofnunum í Evrópu. Stöðugt bætist við efni enda verkefninu hvergi nærri lokið.
Í Þjóðskjalasafni er áfram unnið við að bæta skjalaskrár safnsins sem eru aðgengilegar almenningi á vef Þjóðskjalasafns og munu jafnframt verða aðgengilegar á samevrópskru skjalagáttinni.