Alþjóðlega skjaladaginn ber upp á sunnudag þetta árið, en þá eru skjalasöfn víðsvegar um heiminn með tildragelsi af ýmsu tagi til að vekja athygli á mikilvægi skjalasafna, sem eru minni heimsins um liðna atburði og vörslustaðir skjala sem varða réttindi borgaranna.
Á alþjóðlegri ráðstefni í Vínarborg árið 2004 samþykktu 2000 fulltrúar ályktun um að fara þess á leit við Sameinuðu þjóðirnar að komið yrði á fót alþjóðlegum skjaladegi til að vekja athygli á mikilvægi skjalasafna. Alþjóða skjalaráðið (ICA) ákvað svo upp á sitt einsdæmi árið 2007 að 9. júní skyldi vera alþjóðlegur skjaladagur, en Alþjóða skjalaráðið var einmitt stofnað 9. júní 1948.
Það er í raun full ástæða til að minna fólk á skjalasöfnin því þangað leitar fólk oft þegar mikið liggur við. Og þá er gott að vita hvert á að leita. Skjalasöfnin varðveita heimildir um horfna tíma sem hjálpa okkur að rifja upp atburði, ákvarðanir, minningar og margt fleira. Þangað geta stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar leitað, komið sínum dýrmætustu skjölum í öruggt skjól og vitjað þeirra aftur og aftur.
Frá árinu 2008 hafa mörg skjalasöfn víða um heim verið með dagskrár og viðburði á alþjóðlega skjaladeginum.
Nánar um alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.
Vefur alþjóðlega skjaladagsins 2013.