51 ár frá Vestmannaeyjagosinu - Viðbragðsáætlunin sem aldrei var notuð

þriðjudagur, 23. janúar 2024 - 13:00
  • RÚV. Morgunfréttir 23.1.1973. ÞÍ. RÚV 2010-78
    RÚV. Morgunfréttir 23.1.1973. ÞÍ. RÚV 2010-78
  • RÚV. Sjónvarpsfréttir 23.1.1973. ÞÍ. RÚV 2010-78
    RÚV. Sjónvarpsfréttir 23.1.1973. ÞÍ. RÚV 2010-78
  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Almannavarnir ríkisins. Áætlun um skipulagðan brottflutning fólks úr Vestmannaeyjum 2011. B40-1
    ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Almannavarnir ríkisins. Áætlun um skipulagðan brottflutning fólks úr Vestmannaeyjum 2011. B40-1

"Um klukkan tvö í nótt hófst eldgos í Heimaey, sem er stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum. Mikið hraungos er úr sprungu, sem er í brekkunni austan við Helgafell, aðeins ofan við byggðina, sprungan liggur frá Kirkjubæ og allt suður að Skarfatanga, sem er rétt austan við flugbrautarendann."

Þannig hljómuðu morgunfréttir Ríkisútvarpsins þann 23. janúar 1973 en í dag eru 51 ár síðan gos hófst og fram fór frækileg björgun sem kalla má einsdæmi í Íslandssögunni. Björgunaraðgerðirnar þóttu heppnast afar vel en það mátti að talsverðu leyti þakka því að aðstæður voru eins og best varð á kosið. Níu árum áður, í febrúar 1964, hafði verið samin viðbragðsáætlun um skipulag brottflutnings íbúa Vestmannaeyja. Ekki er ólíklegt að ástæða fyrir gerð hennar hafi verið Surtseyjargosið. Almannavarnir ríkisins höfðu greinilega útbúið þessa viðbragðsáætlun ef á þyrfti að halda, en töldu þó litlar líkur á að eldgos myndi hefjast í Heimaey. Áætlunin virðist þó hafa fallið í gleymskunnar dá, því þegar eldgos hófst um klukkan 2 aðfaranótt 23. janúar 1973 í Vestmannaeyjum virtust viðbragðsaðilar ekki hafa vitað af tilvist hennar.

Í heimild mánaðarins fjallar Andrea Ásgeirsdóttir um viðbragðsáætlunina og ber hana saman við þá atburði sem fóru í hönd árið 1973. Þar má einnig lesa áætlunina í heild sinni.
https://skjalasafn.is/Heimild